Ritlistasmiðja Ungskálda 23. október nk. - skráning í fullum gangi
Eins og mörg undanfarin ár kemur VMA núna á haustönn að Ungskáldum í samstarfi við MA, Amtsbókasafnið á Akureyri, Akureyrarstofu, SSNE – Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Ungmennahúsið í Rósenborg og Akureyrarbæ. Þetta verkefni er eina sinnar tegundar á landinu og hefur verið árlegur liður síðan árið 2013. Verkefnið er stutt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.
Ritlistasmiðja Ungskálda
Liður í starfsemi Ungskálda er ritlistasmiðja fyrir ungt fólk sem verður efnt til í húsakynnum MA að rúmri viku liðinni, laugardaginn 23. október, kl. 10:00-15:30. Markmiðið með smiðjunni er að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára, því að kostnaðarlausu.
Leiðbeinendur ritlistasmiðjunnar að þessu sinni verða Fríða Ísberg rithöfundur og ljóðskáld og Halldór Laxness Halldórsson - Dóri DNA, leikari, rithöfundur og uppistandari.
Fyrri hluta dags leiðir Fríða Ísberg vinnuna en síðan verður boðið upp á létt hádegissnarl kl. 12:30 til 13:00. Að því loknu leiðbeinir Dóri DNA þátttakendum.
Hér er hægt að skrá sig í ritlistarsmiðjuna. Skráning er opin til miðnættis fimmtudaginn 21. október nk.
Fríða Ísberg fæddist árið 1992. Hún lauk grunnprófi í heimspeki og meistaraprófi í ritlist við Háskóla Íslands. Hún vakti mikla athygli fyrir ljóðabækur sínar, Leðurjakkaveður og Slitförina, en sú síðarnefnda hlaut meðal annars Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. Smásagnasafnið Kláði var tilnefnt til sömu verðlauna auk Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Fríða er ein af Svikaskáldum sem sent hafa frá sér þrjú ljóðverk og staðið fyrir margháttuðum viðburðum tengdum ljóðlist. Fyrsta skáldsaga hennar, Merking, kemur út núna í október.
Halldór Laxness Halldórsson – Dóri DNA er fæddur árið 1985. Hann skrifaði og lék í leikritinu Þetta er grín án djóks, ásamt Sögu Garðarsdóttur sem sett var upp af Menningarfélagi Akureyrar árið 2015. Sama ár gaf hann út ljóðabókina Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir, en hún var tilnefnd til Menningarverðlauna DV árið 2016. Bókin hefur nú komið út í Þýskalandi. Haustið 2019 kom út fyrsta skáldsaga Dóra DNA, Kokkáll, sem hlaut fínar viðtökur. Að undanförnu hefur Dóri unnið að næstu skáldsögu sinni, leikritinu Þéttingu hryggðar, sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu nýverið, og ýmsum kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum.
Ritlistasamkeppni Ungskálda
Í framhaldi af ritlistasmiðjunni efna Ungskáld, sem fyrr, til ritlistasamkeppni ungs fólks á Norðurlandi eystra á aldrinum 16-25 ára. Veitt verða vegleg peningaverðlaun fyrir þrjú efstu sætin. Engar hömlur eru settar á hvers konar textum er skilað inn, hvorki varðandi efnistök né lengd. Textarnir þurfa að vera á íslensku og mælt er með að þeim sé skilað á PDF- eða Word-formi. Skilafrestur er til miðnættis þriðjudaginn 16. nóvember nk. á netfangið ungskald@akureyri.is.
Úrslit í ritlistasamkeppninni verða síðan kunngjörð þann 9. desember nk. á Amtsbókasafninu á Akureyri.
Ritlistakvöld í desember
Þann 7. desember nk. verður kaffishúsakvöld Ungskálda haldið á Ketilkaffi í Listasafninu á Akureyri. Kvöldið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16-25 ára sem hefur áhuga á ritlist og er þetta kjörið tækifæri fyrir unga og áhugasama sem fást við skriftir að hitta aðra sem gera slíkt hið sama, kynnast verkum þeirra og mögulega að lesa upp sín eigin verk. Boðið verður upp á kaffi, kakó og kökur fyrir gesti.
Orð unga fólksins
Þess má að lokum geta að nú stendur yfir í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi á Akureyri sýningin Orð unga fólksins, þar sem gefur að líta þau verk sem unnið hafa til verðlauna í Ungskáldasamkeppninni frá upphafi. Sýningin verður opin til 25. október nk.