Rjúfum hefðirnar - förum nýjar leiðir!
VMA tekur þátt í verkefninu Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir sem hefur að markmiði að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk karla og kvenna. Verkefnið, sem er stýrt af Jafnréttisstofu, hófst sl. haust og lýkur á næsta ári.
Helstu áherslur í þessu verkefni, sem Jafnréttisstofa hefur umsjón með, er að stuðla að jafnrétti kynjanna í menntun, starfsþjálfun og ráðgjöf, brjóta upp kynbundnar staðalmyndir í náms- og starfsvali, vekja áhuga kvenna á hefðbundnum karlastörfum og vekja áhuga kvenna á hefðbundnum karlastörfum.
Verkefnið tekur til nokkurra fyrirtækja og stofnana á Akureyri. Öll skólastig taka þátt í því; leikskólinn Lundarsel, Oddeyrarskóli, VMA og Háskólinn á Akureyri. Einnig taka Öldrunarstofnanir Akureyrar þátt og sömuleiðis Slippurinn Akureyri.
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, segir að í verkefninu beini skólinn fyrst og fremst sjónum að því annars vegar að fjölga stúlkum í tækninámi og hins vegar að fjölga strákum í hársnyrtiiðn og á sjúkraliðabraut. Skólameistari bendir á að til fjölda ára hafi yfirgnæfandi meirihluti nemenda VMA á nokkrum verknámsbrautum verið strákar, t.d. í byggingadeild, málmiðnaðardeild, rafiðnbraut og vélstjórn, en síðan snúist dæmið alveg við í bæði hársnyrtiiðn og á sjúkraliðabraut.
Nú þegar er komið í gang samstarf VMA við leikskólann Lundarsel, sem mun m.a. felast í gagnkvæmum heimsóknum nemenda milli skólanna, VMA-nemum verður kynnt starfsemi leikskólans og störf leikskólakennara og krakkar á Lundarseli koma í VMA og kynna sér sérstaklega áðurnefndar námsbrautir.
Í stýrihópi VMA vegna umrædds verkefnis eru Sigríður Huld skólameistari, Snorri Björnsson kennari og Árný Þóra Ármannsdóttir, náms- og starfsráðgjafi.
Áætlað er að verkefninu ljúki haustið 2018 með málþingi, þar sem dregnar verða saman niðurstöður þess og árangurinn metinn.