Rönning leggur rafiðndeild VMA lið
Það er gömul saga og ný að stuðningur atvinnulífsins við skólastarfið er VMA afar dýrmætur. Eitt þeirra fyrirtækja sem hafa verið óspör á slíkan stuðning er Johan Rönning sem m.a. selur allt sem þarf til raflagna. Í dag kom Ágúst Axelsson, rekstrarstjóri Rönning á Akureyri, færandi hendi í VMA og afhenti með formlegum hætti töfluefni, sem kemur sér að góðum notum núna á vorönn þegar Guðmundur Geirsson kennir nemendum á annarri önn í grunndeild rafiðna uppsetningu á raftöflum og tengingar við hana.
Áfangi í uppsetningu á töflum hefur verið kenndur á fjórðu önn í grunnnáminu en færist núna á aðra önn. Guðmundur segir mikilvægt að hafa samfellu í námið frá fyrstu önn yfir á aðra. Á fyrstu önninni sé farið í grunnatriðin í raflögnum og rökrétt sé að halda áfram með nemendur í næsta skref núna á vorönninni sem sé að setja upp töflur og leggja í þær. Í þessa kennslu þarf að sjálfsögðu heilmikinn búnað sem Guðmundur segir kærkomið að fá frá Rönning. Ofan á kennsluna núna á vorönn í uppsetningu á töflum verði síðan byggt á síðari stigum.
Bestu jólakveðjur og þakkir til Rönning fyrir þennan góða stuðning.