Fara í efni

Safna lífsýnum í VMA í dag

Þau vinna að því að safna lífsýnunum í VMA.
Þau vinna að því að safna lífsýnunum í VMA.
Í gær voru nokkrir starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar og Þjónustumiðstöðvar rannsóknarverkefna að safna lífsýnum úr nemendum og starfsfólki VMA. Því verður haldið áfram í dag og verður söfnun lífsýnanna í Gryfjunni í löngufrímínútum og frameftir degi.

Í gær voru nokkrir starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar og Þjónustumiðstöðvar rannsóknarverkefna að safna lífsýnum úr nemendum og starfsfólki VMA. Því verður haldið áfram í dag og verður söfnun lífsýnanna í Gryfjunni í löngufrímínútum og frameftir degi.

Í kynningarbréfi Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar og ábyrgðarmanns lífsýnasafns ÍE, og Ingibjargar J. Eiríksdóttur, hjúkrunarfræðings og forstöðumanns Þjónustumiðstöðvar rannsóknarverkefna, um lífsýnatökuna segir orðrétt:

Íslensk erfðagreining hefur falið starfsfólki Þjónustumiðstövðar rannsóknarverkefna að leita eftir þátttöku einstaklinga í samanburðarhóp, en erfðaefni þeirra verður notað sem samanburðarsýni í rannsóknum á fjölda sjúkdóma, svo sem krabbameina, sykursýki og hjartasjúkdóma.

Til að mynda þennan samanburðarhóp býður Íslensk erfðagreining þeim að taka þátt sem hafa ekki áður tekið þátt í rannsóknum ÍE, koma frá ólíkum landssvæðum og eru orðnir 18 ára.

Sumir eru valdir úr ættfræðigrunni ÍE á dulkóðuðum kennitölum, sem voru síðan afkóðaðar með sérstökum hugbúnaði sem hlotið hefur samþykki Persónuverndar. Íslensk erfðagreining hefur ekki dulkóðunarlykilinn undir höndum, en hann er varðveittur af fulltrúa Persónuverndar.

Rannsóknin hefur hlotið leyfi Vísindasiðanefndar og Persónuverndar.

Þátttakan er fólgin í eftirfarandi:

Undirritun upplýsts samþykkis fyrir samanburðarrannsóknina er skilyrði fyrir þátttöku og þátttakendur eru hvattir til að undirrita einnig samþykki fyrir þátttöku í lífsýnasafni ÍE (sjá nánar á www.rannsokn.is)

Að gefa sýni til erfðarannsókna. Sýnið tekur þú sjálf/sjálfur með meðfylgjandi munnsköfu, samkvæmt leiðbeiningum, og sendir til baka ásamt undirrituðu upplýstu samþykki til Þjónustumiðstöðvar rannsóknarverkefna. Nánari sýnatökuleiðbeiningar má finna á www.rannsokn.is

Að heimila að síðar kunni að verða leitað til þín um að gefa annað lífsýni eða upplýsingar um heilsufar (gjarnan með tölvupósti ef þú gefur upp tölvupóstfang).

Um leið og við vonum að þú takir þessari beiðni okkar vel lýsum við fullum skilningi á þeim rétti þínum að hafna þátttöku án nokkurra skýringa. Ákveðir þú að vera með getur þú á sama hátt afturkallað þátttöku þína hvenær sem er og krafist að sýnum frá þér verði eytt.

Hafir þú einhverjar spurningar um rannsóknina þá getur þú hringt í síma 520-2800 í Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna þar sem leitast verður við að svara spurningum þínum eins vel og hægt er.

----

Þeir sem vilja taka þátt í því að láta Íslenskri erfðagreiningu í té lífsýni í VMA geta  tekið þau á staðnum í dag. Einnig geta þáttakendur tekið með sér gögnin heim og sent sýnið til Þjónustumiðstöðvar rannsóknarverkefna.

Í kynningarbæklingi frá Íslenskri erfðagreiningu segir að tilgangurinn með lífsýnasafni fyrirtækisins sé að nota sýni og upplýsingar, sem í það er safnað til læknisfræðilegra vísindarannsókna, en leita orsaka, bættrar greiningar og meðferðar á sjúkdómum og/eða fyrirbyggjandi aðgerða. Rannsóknirnar muni einkum beinast að því hvernig heilbrigði og sjúkdómar ráðist af samspili erfða og umhverfis. Í því samhengi geti verið nauðsynlegt að gera stofnerfðafræðilegar rannsóknir á erfðafræði sýnanna m.t.t. uppruna Íslendinga og skyldleika þeirra við aðrar þjóðir og þjóðarbrot. Einnig verði stundaðar lyfjaefnafræðilegar rannsóknir á sýnunum í þeim tilgangi að finna ný lyf til lækninga. Þeir sjúkdómar sem geti verið um að ræða séu allir algengustu sjúkdómarnir svo sem: Hjarta- og æðasjúkdómar, lugnasjúkdómar, sjálfsofnæmis- og gigtarsjúkdómar, meltingarsjúkdómar, tauga- og geðsjúkdómar, beinþynning og nýrnasteinar og tilhneiging til veiru- og bakteríusýkinga.

Margrét Andrésdóttir, sem heldur utanum söfnun lífsýnanna í VMA, segir að stefnt sé að því að safna allt að 30.000 sýnum úr Íslendingum, sem sé vissulega háleitt markmið. Hún segir að söfnunin hafi hafist í október sl. og nú þegar sé búið að safna um 5.000 lífsýnum.  Margrét segist þakklát skólayfirvöldum í VMA að fá að leita eftir sýnum innan veggja skólans, en einnig var í gær safnað lífsýnum úr nemendum í Háskólanum á Akureyri.

Margrét segir mikilvægt að fá sýni úr yngra fólki til samanburðarrannsókna, enda séu margir þeirra sem sýni voru tekin úr fyrir 10-15 árum, orðnir fullorðnir. Liður í því að nálgast sýni úr ungum Íslendingum sé að fá að fara inn í framhaldsskóla og háskóla, en þátttakendur verða að vera orðnir átján ára gamlir.