Fara í efni

Safngripir til kennslu í vélskóladeildinni

Tómas Hansen með nemendum sínum í vélskóladeild VMA í október 1985.
Tómas Hansen með nemendum sínum í vélskóladeild VMA í október 1985.

Þessa vika er þemavika í VMA og er sjónum beint að 40 ára afmæli skólans á þessu ári og eitt og annað er rifjað upp frá fyrri tíð.

Í gegnum tíðina hafa birst margar greinar í blöðum og tímaritum um VMA. Fyrir nákvæmlega 39 árum, 8. október 1985, á öðru starfsári Verkmenntaskólans, birti Dagur á Akureyri, sem var dagblað áður en það hætti útgáfu á tíunda áratug síðustu aldar, umfjöllun um VMA. Í opnugrein var fjallað um þrjár verknámsdeildir; málmiðnbraut, rafiðnbraut og vélskóladeildina, sem var forveri þeirrar vélstjórnarbrautar sem við þekkjum við VMA í dag.

Blaðamaður Dags á þessum tíma, leikarinn og útvarpsmaðurinn góðkunni Gestur Einar Jónasson, ræddi við Tómas Hansen, sem bar titilinn forstöðumaður vélskóladeildar VMA. Í upphafi greinar sinnar skrifar Gestur Einar:

Það var ekki neinn viðvanings- eða byrjendabragur á Tómasi Hansen þar sem hann stóð við gamla Wickmannvél úr gamla Snæfellinu og spurði nemendur spjörunum úr um gang eldri vélar, sem einn nemandi var að reyna að gangsetja. Það voru mörg atriði sem þurfti að fara yfir til að allt væri með felldu. Tómas ásamt öðrum nemendum höfðu kallað fram bilun í vélinni. Þessi nemandi sem gangsetja átti vélina hafði því margt að skoða og hugsa. Að lokum tókst nemandanum að gangsetja þessa ævafornu Delta-vél. En slíkar vélar eru ekki lengur í notkun í nokkrum bátum í dag. Sýnir það glöggt hversu gamlar og úr sér gengnar vélar eru ætlaðar til kennslu við vélskóladeild Verkmenntaskólans. Gömul vél af Delta-gerð og Gamli Wickmanninn úr gamla Snæfellinu, sem nú hvílir á sjávarbotni.

Tómas Hansen hafði þá nýlega lokið prófi í véltæknifræði í Danmörku og kom beint til Akureyrar til kennslu. Hann orðaði það svo í Degi að kennslan væri miklu líkari hugsjónastarfi því ekki hefði kaup kennara mikið aðdráttarafl. Tómas fór ekki leynt með að vélakostur skólans væri ekki upp á marga fiska, verið væri að kenna á vélar sem í öðrum löndum væru safngripir.

Nemendur í vélskóladeildinni þennan vetur voru 35 sem var svipuð aðsókn og árin á undan. Námið var í tvö og hálft ár. Eftir fyrsta árið öðluðust nemendur heimild til vélgæslu á allt að 500 hestafla vélar. Eftir nám í einn og hálfan vetur til viðbótar fengu menn réttindi á 1000 hestafla vélar og gátu þá kallað sig vélstjóra. Frekara nám var ekki í boði á Akureyri á þessum tíma, til frekara náms þurfti að fara suður til Reykjavíkur í Vélskóla Íslands. 

Síðan skrifar Gestur Einar í greininni í Degi:

Það er draumurinn að geta fengið alla kennslu til Akureyrar, að sögn Tómasar. Slíkt tekst líklega ekki strax. Það sem menn vona í sambandi við kennsluna í vélskóladeildinni er að hermirinn sem mikið hefur verið rætt um að undanförnu komi sem fyrst. Tómas sagði að þessi hermir væri einstakt tæki, því með slíku tæki væri hægt að kenna og æfa nánast allt sem þarf að gera í vélarrúmi. Þetta tæki sem kallast hermir er væntanlegt til skólans á næsta ári. Tómas vildi endilega segja okkur nánar frá ágætum hermisins. Kom þar fram að hægt er að framkalla allt sem getur gerst í vélarrúmi skips. Allar mögulegar bilanir er hægt að kalla fram í vélarherminum sem getur kennt vélstjórum rétt viðbrögð þegar út í alvöruna er komið á sjónum. Segja má að hermirinn sé svo nákvæmur að hann framkalli allt nema sjóveiki í mönnum. Með tilkomu tækisins má búast við að möguleikar þess að fá alla vélstjórnarkennslu til Akureyrar stóraukist. Kom frarn hjá Tómasi að andstaða gegn tækinu hefði verið nokkur, bæði hjá yfirvöldum, útgerðarmönnum og umboðsmönnum véla á Íslandi. Sögðust margir heldur vilja láta þessa ungu vélstjóra fá ekta vélar í hendurnar til að æfa sig á. En Tómas var ekki á sömu skoðun. Hann sagðist geta sagt með vissu að hermir sem þessi, sem kostar um 12 milljónir, gæti borgað sig upp á 5 mínútum. Hann rökstuddi mál sitt með því að það væri auðvelt að brjóta stórar og mjög dýrar skipavélar á augnabliki. Þess vegna væri hægt að koma í veg fyrir slíkt með kennslu í hermi sem þessum. Það tekur ekki langan tíma að brjóta vél með einu röngu handtaki. En þjálfun sem gæti fengist í herminum gæti auðveldlega komið í veg fyrir það. Auk þess er hægt að gera hagkvæmnisrannsóknir í svona tæki, bæði hvað varðar notkun á ýmsum vélarhlutum og einnig sparnaðarathuganir varðandi olíu og annað eldsneyti. Allar slíkar rannsóknir eru mjög nákvæmar og geta komið sér vel þegar fram líða stundir.