Sálfræði í náms- og starfsfræðslu
Eins og kom fram í frétt hér á heimasíðunni í gær taka nemendur á brautabrú áfanga á haustönn sem nefnist Náms- og starfsfræðsla og þar gefst þeim tækifæri til þess að kynna sér nám á ýmsum námsbrautum VMA. Áfanginn hefur orðið til þess að auðvelda mörgum nemendum námsval í framhaldinu. Nýjung í Náms- og starfsfræðslu að þessu sinni eru nokkrar kennslustundir í því sem kalla má hagnýta sálfræði sem Kristjana Pálsdóttir og Urður María Sigurðardóttir sjá um. Kristjana segir um að ræða eilítið öðruvísi nálgun í sálfræðinni.
„Við fjöllum mest um grunnþætti geðheilbrigðis og hvað nemendur geta gert til að stuðla að góðri geðheilsu, hvaða bjargráð eru fyrir hendi ef þeim líður illa og hvernig unnt er að efla tilfinningalæsi. Við förum líka í slökun með nemendum og veljum það besta sem sálfræðin hefur upp á að bjóða. Við vinnum þetta í samstarfi við sjúkraliðabraut og hársnyrtibraut og köllum okkar stöð í NÁSS (Náms- og starfsfræðsla) Hjúkrun, hár og hugsun. Það sem af er hefur komið okkur skemmtilega á óvart hversu opnir nemendur eru og hversu tilbúnir þeir eru að lýsa tilfinningum sínum. Það er í mínum huga enginn vafi á því að það var rétt ákvörðun að bæta við þessum sálfræðihluta í Náms- og starfsfræðslu á brautabrúnni. Þörfin er klárlega til staðar, enda liggur fyrir að kvíði og geðrænn vandi hefur aukist hjá ungu fólki og því er mikilvægt að geta boðið upp á þessar kennslustundir,“ segir Kristjana og bætir við að í sálfræðiáföngum í VMA sé meiri áhersla á fræðilega hlutann. „En hér er hins vegar um öðruvísi nálgun að ræða þar sem áherslan er á hagnýtar leiðir til þess að hjálpa nemendum að efla sína eigin geðheilsu. Við hittum þá í tvö til þrjú skipti, fjórar kennslustundir í senn, og það sem af er finnst mér þetta gefa góð raun.“
Núna á haustönn kenna Kristjana og Urður einnig í fyrsta skipti nýjan áfanga á starfsbraut sem kallast Sálfræði, hugsun og sjálfsmynd. „Í þeim áfanga höfum við tækifæri til þess að fara dýpra í hlutina, bæði fræðilega og í því sem við getum kallað hagnýta sálfræði. Við komum m.a. inn á minnisferli, atferlismótun, tilfinningalæsi, sjálfsmynd, líkamsmynd og hegðun í hóp,“ sagði Kristjana.