Sálfræðiþjónusta í VMA á vorönn
Jóhanna Bergsdóttir frá Sálfræðiþjónustu Norðurlands annast núna á vorönn sálfræðiþjónustu fyrir nemendur VMA. Hún verður með viðtalstíma í skólanum og einnig mun Sálfræðiþjónusta Norðurlands efna til funda með foreldrum nemenda og starfsmönnum skólans. Um er að ræða samstarfsverkefni VMA og Sálfræðiþjónustu Norðurlands á þessari önn.
Jóhanna lauk á sínum tíma BA-prófi í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri en tók síðan í framhaldinu masterspróf í Árósum í Danmörku þar sem áherslan var ekki síst á sálfræðiþjónustu fyrir ungt fólk. Einnig er hún með kennsluréttindi. Frá árinu 2011 starfaði hún hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands á Akureyri en hefur nú starfað í rúmt ár hjá Sálfræðiþjónustu Norðurlands.
„Ég verð hér í VMA í sextán tíma á viku með bæði svokallaðan opinn tíma á mánudögum frá 9:30 til 12:00 þar sem nemendur geta komið til mín án þess að panta tíma. Síðan verð ég með viðtalstíma á þriðjudögum 08:00-14:00 og fimmtudögum kl. 08:00-12:00 en fyrir báða þessa daga þarf að panta tíma í gegnum Svövu og Ásdísi námsráðgjafa,“ segir Jóhanna.
Hægt er að panta tíma hjá Jóhönnu með því að senda tölvupóst á námsráðgjafana – Svövu svava@vma.is eða Ásdísi asdisb@vma.is. Jóhanna er með skrifstofu innst í B-álmu skólans.
Þessi sálfræðiþjónusta er nemendum VMA að kostnaðarlausu. Auk einstaklingsviðtala mun Jóhanna hitta alla umsjónarhópa nýnema í lífsleikni þar sem hún mun m.a. kynna hugræna atferlismeðferð. Einnig mun hún auk annars fagfólks frá Sálfræðiþjónustu Norðurlands eiga fundi með foreldrum nemenda í VMA og starfsfólki skólans. Þeir verða auglýstir nánar þegar nær dregur.
Jóhanna segir að út viðtölum við ungt fólk sem hafi leitað til hennar í Sálfræðiþjónustu Norðurlands sé kvíði og depurð í einni eða annarri mynd það sem helst angri ungt fólk. „Svokallaður frammistöðukvíði er áberandi, sem birtist í því að fólki finnst að það sé ekki að gera rétt eða nóg gagnvart sjálfum sér og öðrum. Kröfurnar í samfélaginu setja ákveðna pressu á einstaklingana og margir standa ekki undir því, sem aftur birtist í depurð og kvíða,“ segir Jóhanna og hvetur nemendur skólans til þess að nýta sér þá þjónustu sem hún bjóði upp á. „Í starfi mínu í VMA fellst ekki meðferðarúrræði en mitt er að kortleggja vandann og vísa fólki áfram í viðhlítandi meðferð, sé þess þörf. En viðtöl við sálfræðing eins og ég býð upp á geta oft hjálpað mikið og skipt sköpum,“ segir Jóhanna.
Haustið 2012 hóf VMA fyrstur hérlendra framhaldsskóla sálfræðiþjónustu og sinnti Hjalti Jónsson sálfræðingur henni í hlutastarfi í nokkur ár. Fljótlega kom í ljós mikil þörf fyrir þessa þjónustu og var árangurinn af henni ótvíræður. Undanfarin misseri hefur hins vegar ekki verið unnt að bjóða upp á sálfræðiþjónustu í VMA vegna fjárhagsþrenginga þar til nú að fé hefur fengist til að bjóða aftur upp á hana til vors.