Samningur VMA og Ferrozink um hlífðarbúnað og fleira
Verkmenntaskólinn og málmiðnaðarfyrirtækið Ferrozink á Akureyri hafa gert með sér samstarfssamning sem felur í sér að fyrirtækið veitir nemendum í grunndeild málm- og véltæknigreina hámarksafslátt af fatnaði og öðrum búnaði sem nemendur þurfa að hafa yfir að ráða í náminu.
Slíkur samningur hefur ekki verið gerður áður fyrir nemendur í grunndeild málm- og véltæknigreina en í janúar sl. gafst nemendum í byggingadeild kostur á að kaupa hlífðarfatnað með ríkulegum afslætti og VMA greiddi niður fatnaðinn fyrir nemendur eins og nú er gert. Sá „grunnpakki“ sem um ræðir er metinn á um 25 þúsund krónur og þar af niðurgreiðir VMA sem nemur 19 þúsund krónum á hvern nemanda.
Það sem um ræðir í þessum pakka er: Vinnugalli, öryggisskór með stáltá, öryggisgleraugu, vinnuvettlingar, rennimál, merkipenni, tommustokkur og heyrnahlífar.
Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðnaðarbrautar VMA, segist fagna mjög umræddum samningi VMA og Ferrozink sem geri nemendum kleift að eignast framangreindan fatnað og búnað á hagkvæman hátt. Ætíð hafi verið lögð rík áhersla á öryggismál í kennslu á málmiðnaðarbrautinni og því sé afar mikilvægt að nemendur eignist á einu bretti m.a. hlífðarfatnað, öryggisskó, öryggisgleraugu og heyrnahlífar. Aldrei sé of varlega farið og því sé nemendum frá fyrsta degi í náminu lagðar lífsreglur með öryggismál.
Þegar litið var á dögunum inn í kennslustund í grunndeild málmiðnaðar hjá Herði Óskarssyni mátti sjá að nú þegar hafa margir nemenda keypt umræddan pakka, gert er ráð fyrir að þeir hafi útvegað sér hann samkvæmt samningnum eigi síðar en í þessari viku, 2.-8. september, í verslun Ferrozink að Árstíg 6 Á Akureyri.
Á haustönn eru 45 nemendur skráðir í nám í grunndeild málmiðnaðar í VMA og er þeim skipt í fjóra hópa. Í það heila stunda á annað hundrað nemendur nám á málmiðnaðarbrautinni, auk grunndeildarinnar eru nemendur sem lengra eru komnir í málmiðngreinum og einnig taka bæði nemendur í rafiðngreinum og vélstjórn áfanga á málmiðnaðarbrautinni.