Samráðsfundur með skólastjórum grunnskóla
Í gær áttu forsvarsmenn VMA fund með skólastjórum grunnskólanna á Akureyri og fræðslustjóra Akureyrarbæjar þar sem m.a. var farið yfir ýmis mál sem miða að því að auka samstarf á milli grunn- og framhaldsskólastigsins. Slíkur samráðsfundur milli stjórnenda VMA og grunnskólanna á Akureyri er orðinn fastur liður og mikilvægur þáttur í að ræða ýmis sameiginleg hagsmunamál.
Liður í því að brúa bilið milli þessara skólastiga er svokölluð matsönn sem VMA býður nemendum sem eru á
síðustu önn í grunnskóla að taka, en hún felst í því að þessum nemendum gefst kostur á því að taka einn
eða fleiri grunnáfanga í fjarnámi VMA og ljúka þeim að vori, um leið og þeir ljúka 10. bekk grunnskóla. Þegar þessir
sömu nemendur koma síðan í VMA að hausti hafa þeir lokið viðkomandi grunnáfanga eða –áföngum og taka þá strax
framhaldsáfangann í þeirri grein. Nú eru átján 10. bekkingar skráðir á matsönn.
Þá áttu stjórnendur og stærðfræðikennarar í VMA afar gagnlegan samráðsfund sl. föstudag með
stærðfræðikennurum í grunnskólum á Akureyri og úr nágrannabyggðum um stærðfræði og
stærðfræðikennslu. Væntanlega verður annar slíkur fundur haldinn eftir nokkrar vikur og síðan er stefnt að því að halda í
vor opið málþing um stærðfræði og stærðfræðkennslu.
Meðfylgjandi mynd af stjórnendum VMA og skólastjórnendum grunnskóla á Akureyri var tekinn í hádeginu í gær þegar snæddur var hádegisverður sem nemendur á matvælabraut elduðu og báru fram.
Fleiri góðir gestir voru á matvælabrautinni í gær því þar voru mættir útsendarar hins vikulega þáttar Matur og menning sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni N4. Þetta voru þeir Hallgrímur Sigurðsson kokkur og þáttarstjórnandi og Stefán Friðriksson myndatökumaður. Þeir félagarnir voru að kynna sér starfsemi matvælabrautar og ræddu við bæði nemendur og kennara brautarinnar. Hallgrímur sagði sérstaklega gaman að koma í gamla skólann sinn og fylgjast með verðandi kokkum og þjónum. Hann var á matvælabraut VMA á árunum 1992 til 1994. Bóklega námið tók hann á þeim tíma í núverandi skólahúsnæði á Eyrarlandsholti en verklega námið var í gamla Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti.
Við sjáum afraksturinn af heimsókn þeirra Hallgríms og Stefáns á matvælabraut VMA í þætti þeirra sem sýndur verður nk. mánudag, 10. febrúar, á N4.