Fara í efni

Samstarf HA/HR og VMA um nám í iðnaðar- og orkutæknfræði

Nemendurnir þrír á öðru ári í iðnaðar- og orkutæknifræði við HA/HR. Með þeim er kennari þeirra, Guðm…
Nemendurnir þrír á öðru ári í iðnaðar- og orkutæknifræði við HA/HR. Með þeim er kennari þeirra, Guðmundur Kristjánsson. Hér er unnið í mótorbekk og tengdum búnaði sem er í eigu HR og var fluttur landleiðina norður til að nota í kennslu hér.

Það er æpandi þörf fyrir tæknimenntað fólk. Þetta er ekki eitthvað sem stjórnmálamenn segja í tækifærisræðum, þetta er staðreynd, það er mikill skortur á tæknimenntuðu fólki út á vinnumarkaðinn. Lengi hefur verið kallað eftir tækninámi við Háskólann á Akureyri til þess einmitt að styrkja tæknigeirann á Akureyri og nú eru þar kenndar tvær námsbrautir í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, annars vegar í tölvunarfræði og hins vegar í iðnaðar- og orkutæknifræði. Vilji er til samstarfs við VMA um iðnaðar- og orkutæknifræðina og vísir að því er þegar kominn með því að verklegt nám nemenda á öðru ári er í húsakynnum VMA. Þessar myndir voru teknar í VMA á dögunum í verklegri kennslustund nemenda á öðru ári í iðnaðar- og orkutæknifræði HA/HR með kennara sínum, Guðmundi Kristjánssyni.

Í námi í iðnaðar- og orkutæknifræði er áhersla lögð á að byggja upp fræðilega fagþekkingu og tengsl við atvinnulífið. Þetta er 210 eininga, þriggja og hálfs árs nám og við brautskráningu hljóta nemendur lögverndaða heitið tæknifræðingur. Iðnaðar- og orkutæknifræðingar starfa út um allt samfélagið, m.a. á verkfræðistofum, í virkjunum og tækni- og framleiðslufyrirtækjum.

Þetta er annað skólaárið sem háskólarnir tveir hafa samstarf um þetta nám á Akureyri. Á öðru ári eru nú þrír nemendur, tíu nemendur á því fyrsta og það verður áhugavert að sjá hversu margir innritast í námið í haust, en opnað hefur verið fyrir umsóknir.

Haukur Eiríksson, brautarstjóri rafiðndeildar VMA, segir mjög mikilvægt fyrir VMA að eiga í samstarfi við HA og HR um þetta nám því t.d. rafvirkjun og vélstjórn í VMA sé mjög góður grunnur fyrir það. Hann sér fyrir sér að skólarnir geti haft samstarf um vélbúnað sem þarf til þess að kenna í bæði VMA og í þessu námi í HA/HR – t.d. mótorbekk og tilheyrandi búnað. Slíkan búnað skorti fyrir kennsluna í VMA og HA/HR þurfi líka að nota hann í sína verklegu kennslu í iðnaðar- og orkutæknifræðinni. Haukur vonast til að skólarnir geti tekið höndum saman um að eignast slíkan búnað sem verði staðsettur í VMA og nýtist nemendum skólans og síðan í verklegu námi fyrir nemendur í iðnaðar- og orkutæknifræði. Þá nefnir Haukur að mikilvægt sé fyrir nemendur í tæknigreinum í VMA að geta átt þess kost að fylgjast með verklegu námi nemenda í tækninámi á háskólastigi.

Guðmundur Kristjánsson, kennari við Háskólann í Reykjavík, segist því afar hlynntur að skólarnir taki upp slíkt samstarf, á því hagnist allir. Afar mikilvægt sé fyrir verklega námið í iðnaðar- og orkutæknifræðinni í HA/HR að geta haft fast aðsetur í húsakynnum VMA og kjörið væri að skólarnir legðu saman krafta sína til þess að eignast tæknibúnað eins og mótorbekk og tengdan búnað til kennslu.

Guðmundur segir afar mikilvægt að byggja upp þetta tækninám á Akureyri og reynslan af því sé góð. Þetta samstarf háskólanna hafi gengið vel og afar jákvætt væri að fá Verkmenntaskólann líka til samstarfs til þess að byggja enn frekar undir námið til framtíðar.