Samstarf um öryggisbúnað og fatnað fyrir nemendur í byggingadeild
Byko, Hagi, Byggiðn og VMA hafa tekið höndum saman um að útvega nemendum í byggingadeild persónuhlífar og þann fatnað sem námið gerir kröfur um á mjög góðu verði. Af þessu tilefni var efnt til samsætis sl. miðvikudag þar sem samstarfið var formlega innsiglað og boðið upp á veitingar.
Hér eru fleiri myndir sem Hilmar Friðjónsson kennari tók.
Einn af mikilvægum hornsteinum náms í byggingadeild eru öryggismálin. Frá fyrsta degi í náminu í deildinni er lögð mikil áhersla á aðgæslu og að öryggið sé sett á oddinn, enda fást þeir sem starfa í byggingagreinum við margvíslegar hættur á degi hverjum. Eins og vera ber skulu nemendur hafa viðeigandi persónuhlífar við verkstæðisvinnu í húsnæði byggingadeildar, í vinnu við byggingu sumarhúss norðan skólans og í heimsóknum á vinnustaði.
Samstarf framangreindra aðila undirstrikar sameiginlegan skilning og áherslu á öryggismálin. Í þeim vörupakka sem samstarfið tekur til eru hjálmur, öryggisgleraugu, heyrnahlífar, öryggisskór, hanskar, smíðavesti, smíðabuxur og bolur. Listaverð þessara vara er samtals um 57 þúsund krónur en nemendum býðst að kaupa hann á 16.900 krónur.
Þetta er í þriðja skiptið sem VMA á í slíku samstarfi við Byko og Haga en nú kemur einnig Byggiðn – félag byggingamanna að verkefninu með afar myndarlegum hætti.
Auk nemenda og kennara við byggingadeild voru sl. miðvikudag mættir í húsnæði deildarinnar Heimir Kristinsson, varaformaður Byggiðnar, Friðþjófur Ísfeld, svæðisstjóri verkfæra og festinga í Byko, Ómar Árnason, aðstoðarverslunarstjóri Byko Akureyri, Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, og Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari VMA.
Bæði Heimir Kristinsson, fyrir hönd Byggiðn, og Ómar Árnason, fyrir hönd Byko og Haga, fögnuðu því að geta lagt þessu verkefni lið og sögðu mikilvægt að eiga gott samstarf við skólann og geta stutt vel við námið í byggingadeildinni.
Sigríður Huld skólameistari þakkaði fyrir þetta mikilvæga og góða samstarf sem undirstrikaði mikilvægi þess að nemendur væru alltaf meðvitaðir um mikilvægi öryggismála í náminu og út á vinnustöðum.