Samsýning framhaldsskólanna - Eyrún Arna átti frumlegustu hugmyndina
Eyrún Arna Ingólfsdóttir, nemandi á listnáms- og hönnunarbraut VMA, hlaut viðurkenningu á Samsýningu framhaldsskólanna í Reykjavík fyrir frumlegustu hugmyndina. Verkið sitt nefndi Eyrún Endurvinnslu með tvisti en um er að ræða app sem leiðbeinir um flokkun, endurvinnslu og skapandi hugsun. Hugmyndina vann Eyrún Arna í vöruhönnunaráfanga núna á haustönn hjá kennaranum Helgu Björgu Jónasardóttur.
Samsýning framhaldsskólanna var nú haldin í þriðja skipti en VMA tók nú þátt í henni í fyrsta skipti. Fyrir henni stendur Menntavísindasvið Háskóla Íslands í samstarfi við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið. Sýningin var opnuð sl. miðvikudag og lauk í gær, sunnudag. Fyrri tvær samsýningarnar voru haldnar fyrir kóvidfaraldurinn en síðustu tvö ár hefur hún ekki verið haldin. Nú var þráðurinn tekinn upp að nýju og efnt til sýningarinnar í Ráðhúsi Reykjavíkur. VMA var eini skólinn utan höfuðborgarsvæðisins sem tók þátt.
Eins og segir á heimasíðu Samsýningar framhaldsskólanna er hún hugsuð sem sameiginlegur vettvangur framhaldsskólanna til þess að sýna afrakstur vinnu nemenda á sviði nýsköpunar, hönnunar, tækni, lista, iðnaðar og fleiri tengdra greina. Markmiðið er að nemendur skólanna fái tækifæri til þess að vinna með nemendum annarra skóla að uppsetningu sýningar á hugverkum sínum til að gefa almenningi kost á að njóta og fræðast og ekki síður er grunnhugmyndin með sýningunni að styðja og efla menntun á sviði nýsköpunar, hönnunar, lista og verklegra greina.
Núna á haustönn hefur Helg Björg Jónasardóttir kennt áfanga í vöruhönnun í VMA og var ákveðið að horfa til þess að nemendur í þessum áfanga ynnu verk eða hugmyndir til þess að sýna og kynna á Samsýningu framhaldsskólanna 2022. Helga lagði fyrir nemendur þrjú hugtök til þess að vinna út frá; fatasóun, matarsóun og einmannaleiki. Úr þessum áfanga fóru verk tveggja nemenda á sýninguna, annað var hið frumlega app Eyrúnar Örnu. Einnig voru á sýningunni í Ráðhúsinu sýnd nokkur önnur verk nemenda á listnáms- og hönnunarbraut VMA á þessari önn og vorönn 2022.
Helga Björg og Eyrún Arna voru fulltrúar VMA í Ráðhúsi Reykjavíkur og sem fyrr segir tók Eyrún Arna við viðurkenningu fyrir frumlegustu hugmyndina. Eyrún útskrifast sem stúdent af listnáms- og hönnunarbraut VMA núna í desember og er því á lokasprettinum í námi sínu. Þess má geta að Eyrún átti afar athyglisvert innsetningarverk á sýningu fjögurra brautskráningarnema af listnáms- og hönnunarbraut í Listasafninu á Akureyri, sem lauk í gær, sunnudag.
Nokkrar aðrar viðurkenningar voru veittar til þátttakenda á Samsýningu framhaldsskólanna. Í dómnefnd voru Birta Rós Brynjólfsdóttir, vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands, Finnur Jens Númason, lektor við list- og verkgreinadeild Menntavísindasviðs HÍ, Hanna Ólafsdóttir, lektor í listgreinum og fagstjóri myndlistardeildar Menntavísindasviðs HÍ, og Signý Jónsdóttir, vöru- og upplifunarhönnuður.