Sandspói og málverkasýning
Þorbjörg Jónasdóttir hefur ekki setið auðum höndum eftir að hún lét af störfum hjá VMA um áramótin 2015-2016 en þar starfaði hún í tuttugu og átta og hálft ár. Hún lét gamlan draum rætast, settist á skólabekk og lærði myndlist og lét verða af því sem hún hafði verið lengi hvött til, að gefa út ljóðabók. Bókina, sem hún kallar Hefurðu séð sandspóann – örsöguljóð frá ómunatíð, fékk hún úr prentun í þessari viku. Á morgun, laugardaginn 29. september og nk. sunnudag, kl. 13-17 báða dagana, býður Þorbjörg öllum að koma í húsnæði SÍMEY við Þórsstíg á Akureyri og njóta sýningar á myndverkum hennar og um leið að fá kynningu á nýútkominni ljóðabók. Með sýningunni og bókarkynningunni fagna Þorbjörg og Kristinn Sigurðsson eiginmaður hennar sjötugsafmæli beggja og um leið fimmtíu ára brúðkaupsafmæli. Málverkasýningin og útgáfuteitið um helgina er þeirra afmælisveisla og öllum er boðið í hana! Og auðvitað verður Þorbjörg með ljóðabókina, sem hún gefur út sjálf, til sölu í SÍMEY. En athugið, hún verður ekki með posa á staðnum! Hér gefur að líta, að sögn Þorbjargar, útgáfur af þeim hjónum unnar í tré og á milli þeirra er sýningarstjórinn.
„Ég lærði á sínum tíma auglýsingateiknun í Samvinnuskólanum og hef alla tíð haft ánægju af því að teikna. Hins vegar skorti mig grunninn og því ákvað ég eftir að ég hætti að vinna í VMA að sækja mér nauðsynlega grunnþekkingu í myndlistinni. Ég fór í þriggja anna listasmiðju hjá Billu í SÍMEY og lauk því námi fyrir tæpu ári, í desember 2017. Á meðan ég var í náminu og síðan ég lauk því hef ég málað mér til mikillar ánægju og gleði. Auk þess að mála heima í bílskúr höfum við tólf konur úr náminu í SÍMEY hist reglulega einu sinni í viku og málað saman og borið saman bækur okkar. Við köllum okkur Trönurnar og vorum með samsýningu í Deiglunni fyrr í þessum mánuði sem við kölluðum Lífskraft,“ segir Þorbjörg. Á sýningunni um helgina sýnir hún fjölbreytta myndlist og má hér sjá smá sýnishorn af verkum á sýningunni.
Þorbjörg segist hafa sett saman tækifærisvísur frá því hún var unglingur. Hún er fædd á Smáragrund á Jökuldal en fjölskyldan flutti í Þórðarstaði í Fnjóskadal þegar Þorbjörg var ung að árum og hún segist ekki fara leynt með að hún sæki margar myndir í ljóðum sínum úr bernskunni í sveitinni. Nafn bókar sinnar sækir Þorbjörg í Fnjóskadalinn. Á bókarkápu segir hún m.a.: Sandspóinn sá fágæti fugl hefur aðeins sést í suðurhluta Fnjóskadals við sérstök skilyrði og aldrei nema seinni hluta sumars í sólarlausu veðri og þurru á fáförnum stöðum og helst þegar birtu er tekið að bregða.
Á árum áður segir Þorbjörg að kveðskapur sinni hafi verið rímaður en síðustu tíu ár eða svo hafi hún tileinkað sér það form sem birtist í bókinni. Hún kunni því vel. Ljóðin verða ekki síst til þegar Þorbjörg á rólegar stundir og fer út í náttúruna. Þá segir hún að myndir kvikni. Í bókinni eru 55 ljóð – mörg þeirra eru bernskumyndir af ýmsum toga, sem fyrr segir.
læk á það
þar sem gamla fólkið býr
er lítið torfhús
það rennur lækur
í gegnum það
bara svona
eftir miðju gólfinu
læk á það
hausttungl
dagsbirtan hverfur
eins og máttarvana laufin
sem vindurinn feykir
fyrir fætur mína
eftir standa trén
umkomulaus
með fölgula skímu
bakvið naktar greinar
og hausttunglið glottir
við fjallsröndina