Sáu um vorhátíð starfsbrautar
Tvær stúlkur á starfsbraut, Védis Elva Þorsteinsdóttir og Katrín María Karlsdóttir, tóku að sér að skipuleggja og halda utanum vorhátíð starfsbrautar, sem haldin var á síðasta kennsludegi skólans, 30. apríl sl. Sambærileg hátíð hefur ekki áður verið haldin, en í ljósi þess hversu vel tókst til segja þær hátíðina klárlega komna til að vera.
Nemendur hafa ekki áður staðið fyrir slíkri vorhátíð. Þær Védís Elva og Katrín María, sem báðar eru frá Akureyri, segja að grunnhugmyndin að baki hátíðinni hafi verið að ná öllum nemendum starfsbrautar og kennurum saman og fá tækifæri til þess að kveðja þá nemendur á viðeigandi hátt sem útskrifast af starfsbraut í vor.
„Við erum mjög ánægðar með hvernig til tókst. Við settum upp ratleik, sumir fóru í fótbolta, aðrir í kubbaspil og síðan var grillað. Og þar á eftir var boðið upp á köku sem við bökuðum. Við fengum leyfi til þess að skreyta skólann daginn áður og einnig útbjuggum við fiðrildi fyrir kennarana þar sem var skrifað stutt hrós til hvers og eins,“ segja þær stöllur og hrósa því starfi sem fram fer á starfsbraut VMA. Þær voru báðar að ljúka þriðja ári og eiga því því eitt ár eftir í skólanum. Védís Elva segir að sér finnist verklegu greinarnar skemmtilegastar í náminu og Katrín María nefnir sérstaklega sauma og matreiðslu sem skemmtilegustu fögin.
Veturinn er að baki og framundan er sumarið. Védís Elva segir að hún muni vinna í sumar í eldhúsi Sjúkrahússins á Akureyri og hún muni hefja störf strax í næstu viku. Katrín María verður að vinna í sumar í Kexsmiðjunni og hún mun hefja störf í byrjun júní.