Sér um sálfræðiþjónustu í vetur
Jón Viðar Viðarsson annast sálfræðiþjónustu fyrir nemendur VMA í vetur í 75% stöðu. Anna Margrét Hrólfsdóttir sem hefur verið sálfræðingur skólans undanfarin tvö skólaár er í fæðingarorlofi í vetur.
Undanfarin ár hefur Jón Viðar unnið hjá Sálfræðiþjónustu Norðurlands á Akureyri og hefur tekið að sér ýmis verkefni, m.a. unnið fyrir VIRK, Akureyrarbæ o.fl. Hann sinnti sálfræðiþjónustu um tíma í Stórutjarnarskóla í afleysingum og í sjö ár var hann með sálfræðiþjónustu í Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði og í Ólafsfirði.
Jón Viðar er Akureyringur. Árið 2000 flutti hann með fjölskyldu sinni til Maryland í Bandaríkjunum og tók þar fyrri hluta framhaldsskólanáms. Því lauk hann síðan á fjórum önnum í VMA og brautskráðist af náttúrufræðibraut árið 2008. Á þeim tíma var stefnan tekin á læknisfræði en sálfræðin varð ofan á. Grunnnámið tók Jón Viðar í Háskóla Íslands og síðan meistaranám í klínískri sálfræði í Háskólanum í Reykjavík.
Jóni Viðari líst vel á verkefnin framundan, hann hafi ekki áður verið skólasálfræðingur í framhaldsskóla og því verði áhugavert að vinna með ungu fólki á framhaldsskólastigi. Vitað sé að hjá ungu fólki á þessum aldri hafi félagsleg samskipti og virkni minnkað í kóvidfaraldrinum. Hins vegar sé það mjög jákvætt að ungt fólk sé opnara í dag en það var fyrir nokkrum árum og leiti sér hjálpar ef eitthvað bjátar á. Staðreyndin sé sú að samfélagsmiðlar nútímans séu æ stærri áhrifavaldur í líðan ungs fólks en áður. Jón Viðar tekur þó fram að líðan ungs fólks sé almennt góð en alltaf sé hópur sem þurfi á aðstoð að halda. Ljóst sé að enn séu margir nemendur að glíma við eftirköst kóvidfaraldurins, varðandi félagsfælni o.fl.
Jón Viðar er með skrifstofu sína í M07, beint á móti norðurinngangi. Hann er með opna tíma mánudaga til fimmtudaga milli kl 11:00-11:30. En til að bóka tíma hjá sálfræðingi þurfa nemendur að eiga fyrst samtal við námsráðgjafa skólans sem er með skrifstofur sínar í D álmu – Svövu Hrönn Magnúsdóttur eða Helgu Júlíusdóttur.
Vert er að undirstrika að sálfræðiþjónustan er nemendum að kostnaðarlausu og eru þeir hvattir til þess að nýta sér hana.
Það hefur sýnt sig frá því að sálfræðiþjónusta var í fyrsta skipti í boði í skólanum skólaárið 2012-2013 hversu mikilvægur þáttur hún er í þjónustu við nemendur skólans.