Sirrý lýkur störfum á bókasafninu - Hanna Þórey tekur við
Við upphaf þessa skólaárs eru tímamót í sögu bókasafns VMA. Sigríður Sigurðardóttir – Sirrý, sem veitt hefur bókasafninu forstöðu frá stofnun skólans, lætur nú af störfum eftir einstaklega farsælt starf og við tekur Hanna Þórey Guðmundsdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur. Hildur Friðriksdóttir, sem hefur unnið með Sirrý á bókasafninu undanfarin tvö skólaár, er í leyfi og dvelur í Svíþjóð í vetur. Hægri hönd Hönnu Þóreyjar þetta skólaár er Jóhannes Árnason sem hefur verið kennari við skólann til fjölda ára og var um tíma áfangastjóri. Jóhannes mun í vetur einnig sjá um erlend samskipti. Þau voru í höndum Hildar Friðriksdóttur en þar áður hafði Jóhannes yfirumsjón með þeim og þekkir þau því út og inn.
En hver er hinn nýi forstöðumaður bókasafns VMA?
Hanna Þórey er Akureyringur í húð og hár. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1996 og í framhaldinu BA-prófi í bókasafns- og upplýsingafræðum frá Háskóla Íslands. Starfaði að því loknu sem skjalastjóri í heilbrigðisráðuneytinu. Leiðin lá síðan aftur norður til Akureyrar, fyrst vann Hanna Þórey tímabundið á bókasafni Háskólans á Akureyri en var síðan um þriggja ára skeið skrifstofustjóri félagsvísinda- og lagadeildar HA. Þaðan lá leiðin til starfsstöðvar Gallup á Akureyri þar sem Hanna Þórey starfaði í tólf ár að ýmsum verkefnum. Bókasafns- og upplýsingafræðin togaði æ fastar í hana og úr varð að hún tók að sér afleysingar frá janúar til vors á þessu ári á bókasafni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Áfram bjó Hanna Þórey þó á Akureyri en fór ófáar ferðirnar vestur. Henni telst til að yfir Öxnadalsheiði hafi hún farið 64 ferðir í og úr vinnu á vorönn 2019!
Hanna Þórey segir það ekkert launungarmál að eftir að hafa setið löngum stundum við tölvuskjá undanfarin ár hafi hana langað til þess að starfa aftur í sínu fagi á bókasafni og vera þannig í nánum tengslum við fólk. Reynslan af því að starfa á Sauðárkróki fyrstu mánuði þessa árs hafi verið sérstaklega góð og hún hafi haft mikla ánægju af því að vinna með ungu fólki. Þess vegna hafi hún sótt um þetta starf í VMA þegar ljóst var að Sirrý ætlaði að láta af störfum við upphaf þessa skólaárs. VMA sé stór og fjölbreyttur vinnustaður sem bjóði upp á fjölmargt áhugavert að fást við á bókasafninu.
„Mér líst mjög vel á þetta. Það er einstaklega gaman að taka við bókasafni þar sem er svo augljóst að unnið hefur verið af mikilli alúð alla tíð. Sirrý hefur unnið hér allt svo vel og ég veit að hún hefur verið í einstaklega góðu samstarfi við bæði starfsfólk og nemendur. Verkefni mitt er að reyna að fylgja eftir frábæru lífsstarfi Sirrýjar. Hér finnur maður fyrir lífsgleði og ómældum áhuga hennar á hinum daglegu verkefnum. Ég mun leitast við að halda áfram á sömu braut. Sem ný í starfi hér vil ég til að byrja með leggja mig fram um að kynnast því starfi sem hér hefur verið unnið og þeirri menningu sem skólinn stendur fyrir. Ég hyggst vinna áfram á sömu braut, það er engin ástæða til þess að kollvarpa því sem vel hefur verið gert. Hlutverk safnsins er og verður að veita kennurum og nemendum eins góða þjónustu og kostur er. Auk þess að fá bækur að láni og sækja sér upplýsingar stendur nemendum til boða að læra hér eða einfaldlega koma hingað í eyðum í stundaskránni í rólegt og notalegt umhverfi og slaka á. Bókasafnið er og á að vera hjarta skólans,“ segir Hanna Þórey.
Á bókasafninu er tölvuver sem nemendur hafa aðgang að og einnig lesstofa. Í þessari viku verða starfsmenn bókasafnsins með kynningu á því fyrir nýnema, þar sem þeir verða fræddir um hvernig þeir geta nýtt sér bókasafnið og hvað það hafi upp á að bjóða. Hanna Þórey segir af og frá að á tímum aukinnar netnotkunar hafi dregið úr vægi bókasafna. Þvert á móti sé mikilvægt hlutverk skólabókasafna eins og bókasafns VMA að kenna nemendum að leggja mat á það flóð upplýsinga sem þeir geti nálgast á veraldarvefnum.