Sjálfsmynd Rebekku Matche
„Sjálfsmynd“ er heiti málverks vikunnar að þessu sinni. Málarinn er Rebekka Matche, sem útskrifaðist af listnámsbraut í desember sl. Verk Rebekku er unnið með akríl á striga og eins og önnur málverk vikunnar á vorönn var það unnið í áfanganum MYL 504.
„Ég hóf nám hér á félagsfræðibraut árið 2008, en færði mig yfir á listnámsbraut árið 2009. Það sem gerði útslagið með að ég skipti um deild var að einn góðan veðurdag sat ég tíma í sálfræði og fór að velta því fyrir mér að í hausnum á mér kraumuðu allt of margar hugmyndir og þær yrði ég að fá tækifæri til þess að þróa áfram. Ég ákvað því að prófa eitthvað nýtt og listnámsbrautin varð fyrir valinu. Ég sé sannarlega ekki eftir þeirri ákvörðun, sannast sagna get ég ekki hugsað mér neitt betra en þetta nám,“ segir Rebekka, sem er á tuttugasta og fyrsta aldursári. Hefur búið á Akureyri undangengin átta ár. Fæddist og ólst upp í Keflavík, en hafði viðkomu, ef svo má segja, í tvö ár í Blöndudal í Austur-Húnavatnssýslu á leiðinni norður.
Rebekka segir að á næstu mánuðum einbeiti hún sér að því að vinna og safna peningum til þess að fjármagna frekara nám. „Ég hef mestan áhuga á því að fara í kvikmyndanám, annað hvort á Íslandi eða utan landssteinanna, og starfa við leikstjórn í framhaldinu.
Um verk sitt, „Sjálfsmynd“, segir Rebekka að það sýni manneskju, sem þó sé í raun ekki mannleg. Myndin er nokkuð myrk og segir Rebekka að þarna sé hún að hluta að vinna með þunglyndi, sem hún hafi sjálf átt við að stríða mörg undanfarin ár. „Umræðan um þunglyndi er mun opnari en hún var og það er afar jákvætt,“ segir Rebekka Matche.