Sjúkraliðanemar í verknámi í Danmörku og Finnlandi
Í byrjun janúar fóru sex nemendur á sjúkraliðabraut VMA til Finnlands og Danmerkur – þrír til hvors lands – í starfsnám. Nemendurnir eru væntanlegir heim seinnipart næstu viku.
Nám á sjúkraliðabraut samanstendur af sex önnum í skóla og síðan þurfa nemendur að stunda verknám í samtals fjóra mánuði. Undanfarin ár hafa nokkrir nemendur farið utan til þess að fá innsýn í starf á heilbrigðisstofnunum og þetta skólaár er engin undantekning í þeim efnum. Sex nemendur fóru til Danmerkur og Finnlands strax eftir áramót í starfsþjálfun á þarlendum heilbrigðisstofnunum. Í verknámi þurfa nemendur annars vegar að vera á sjúkrahúsum í tiltekinn tíma og hins vegar öldrunarstofnunum.
María Albína Tryggvadóttir, brautarstjóri sjúkraliðabrautar, segir afar jákvætt að geta sent nemendur erlendis til starfsdvalar, enda víkki það út sjóndeildarhring þeirra. Í Danmörku eru nemendurnir í Randers, vinabæ Akureyrar og í Lahti í Finnlandi, sem sömuleiðis er vinabær Akureyrar. María segir að einnig sé þessi möguleiki kærkominn fyrir skólann, því fjöldi plássa í verknámi hér á landi sé takmarkaður. María segir að í vetur séu væntanlegir sjúkraliðanemar frá þessum löndum til verknámsdvalar hér á Akureyri – einn frá Danmörku og tveir frá Finnlandi.
Hér heima fara nemendur í verknám á sjúkrastofnanir um land allt – sem dæmi nefnir María Ísafjörð, Sauðárkrók, Reykjavík, Hvolsvöll og að sjálfsögðu stofnanir hér í Eyjafirði og nágrannabyggðarlögum.
María nefnir að undir lok þessa mánaðar séu væntanlegir kennarar frá Hollandi til þess að kynna sér sjúkraliðanámið í VMA og í framhaldinu verði mögulega unnt að koma á samstarfi um verknám milli þessara landa.