Skemmtileg reynsla
„Maður veit aldrei við hverju má búast í svona keppni og vissulega var þetta töluvert erfitt, ekki síst tók smá tíma að venjast því hversu margir voru að fylgjast með því sem við vorum að gera. En fyrst og fremst var þetta virklega skemmtileg reynsla og gaman að kynnast öðrum í faginu og sjá hvað þeir eru að gera,“ segja Dagný Anna Laufeyjardóttir, Íris Birna Kristinsdóttir og Magnea Elinóra Pjetursdóttir, nemendur í hársnyrtiiðn við VMA, sem tóku þátt fyrir hönd VMA í Íslandsmóti iðn- og verkgreina í Laugardalshöllinni í síðustu viku. Íris Birna vann til bronsverðlauna í heildarkeppninni og Magnea Elinóra varð í öðru sæti í fantasíugreiðslu.
Allar eru þær þrjár á sama róli í námi sínu í VMA. Þær byrjuðu haustið 2016 og voru til áramóta 2017-2018 en þá var uppihald í náminu og þær komu síðan inn á fjórðu önnina í janúar sl. Eftir þessa önn eiga þær eftir tvær annir í skóla. Þær eru komnar misjafnlega langt í starfsnámi sínu, Dagný Anna vann á Háriðjunni í heimabæ sínum, Húsavík, og tók þar stóran hluta áskilins samningstíma. Íris Birna er byrjuð á samningi sínum hjá Zone á Akureyri en Magnea Elinóra er ekki byrjuð á samningi. Að loknu námstímanum í VMA og samningstímanum geta þær farið í sveinspróf.
Allar tóku þær þátt í Íslandsmóti iðn- og verkgreina fyrir tveimur árum og voru því reynslunni ríkari í ár. Þær segja það hafa hjálpað sér að hafa tekið áður þátt og því vitað í stórum dráttum út á hvað keppnin gengur. Íris Birna og Dagný Anna kepptu í heildarkeppninni sem skiptist í litun og dömuklippingu, herraklippingu, að líkja eftir mynd af ákveðinni hárgreiðslu og lokaverkefnið var brúðarhárgreiðsla. Keppnin í fantasíugreiðslu sem Magnea Elinóra tók þátt í var hins vegar í hálfan annan tíma. Keppendur unnu út frá ákveðnu þema sem í þessu tilfelli var funi.
Allar eru þær sammála um að langt sé síðan að þær hafi ákveðið að fara þessa leið í námi. Íris Birna segist raunar hafa fyrst farið í MA, lokið þar fyrsta árinu og byrjað á öðru en ákveðið þá að fylgja hjartanu og færa sig í hársnyrtiiðn. „Mér finnst alltaf skemmtilegast að takast á við einhverja nýja hluti og bæta þannig við þekkinguna,“ segir Íris Birna og Dagný Anna bætir við að það fari enginn í gegnum slíkt nám án þess að gera fullt af mistökum, sem „er bara allt í lagi því af mistökum lærum við mest.“