Skemmtileg upplifun
Nýverið voru tveir nemendur af sjúkraliðabraut VMA, Alexandra Líf Ingvarsdóttir og Berglind Anna Erlendsdóttir, í starfsnámi í Randers í Danmörku, en það er mikilvægur hluti af námi sjúkraliða. Þær eru sammála um að starfsnámið í Danmörku hafi verið lærdómsríkt og mikilvægt sé að fá ólík sjónarhorn á sjúkraliðastarfið.
Lengi hefur verið mjög gott samstarf milli VMA og Randers Social- og Sunhedsskolen í Randers. Hingað hafa komið nemendur frá Randers í starfsnám á öldrunar- og hjúkrunarstofnunum á Akureyri og nágrenni en á móti hafa nemendur úr VMA farið í starfsnám á öldrunarstofnanir í Randers. Alexandra Líf og Berglind Anna eru nýlega komnar heim eftir þriggja vikna starfsnám í Randers. Danmerkurdvöl þeirra var styrkt af Erasmus +, styrkjaáætlun Evrópusambandsins fyrir mennta-, æskulýðs og íþróttamál.
Alexandra Líf:
Ég starfaði á öldrunarstofnun sem heitir Plejecenter Solbakken og er á margan hátt töluvert frábrugðið því sem hef kynnst hér. Ég hef unnið á dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík og ýmislegt á heimilinu í Randers er öðruvísi en ég þekki frá Dalbæ. Fólkið á Solbakken fannst mér töluvert yngra en á Dalbæ og þurfti því ekki eins mikla aðstoð. Ég upplifði að þetta væri meira heimili fólksins en hjúkrunarheimili og hlutverk okkar starfsmannanna var að rétta því hjálparhönd eins og þurfti. Mér fannst líka áhugavert hversu tæknivætt þetta heimili er. Á hverju herbergi er lyfta sem auðveldar t.d. rúmliggjandi fólki mjög daglegt líf. Og ef fólkið þarf hjálpartæki fær það þau til umráða.
Berglind Anna:
Ég vann á Dronningborg Plejecenter, sem er hluti af Ældrecentre Område Nord. Þannig séð var ég ekki að vinna inn á öldrunarstofnun heldur var ég í heimaþjónustu. Dronningborg er bæði öldrunarstofnun þar sem fólk býr en einnig sér það um heimaþjónustu, sem hluti starfsmannanna vinnur í. Þá þjónustar heimilið fólk sem býr heima. Við fórum í heimsóknir til fólks og hjálpuðum því á ýmsan hátt, varðandi lyfjagjöf, að mæla blóðþrýsting o.fl. Almennt má segja að fólk sem við heimsóttum er ágætlega sjálfbjarga í sínu daglega lífi.
Alexandra og Berglind eru sammála um að sjúkraliðanámið í VMA sé mjög áhugavert og gefandi og starfsnámið í Danmörku hafi verið skemmtileg upplifun.
Alexandra, sem er á sínu öðru námsári, segist hafa fundið sína fjöl í sjúkraliðanum og hún geti hugsað sér að starfa sem sjúkraliði í framtíðinni, jafnvel í Danmörku þar sem hún getur vel hugsað sér að búa í framtíðinni. Berglind var á listnámsbraut í VMA og ákvað að taka u-beygju og fara í sjúkraliðann og er núna á fyrsta ári í því námi. Hún segist ekki sjá eftir því. Um framtíðina segist hún vera óráðin en vel komi til greina að fara áfram í nám í heilbrigðisvísindum, annað hvort í læknisfræði eða hjúkrunarfræði, og þá sjái hún það frekar fyrir sér erlendis.