Skemmtilegt í skóla
Emma Þöll Hilmarsdóttir stundar nám á listnáms- og hönnunarbraut – myndlistarlínu – og er langt komin í náminu. Listnámsáföngunum lýkur hún í vor en á þá eftir nokkra bóklega áfanga til stúdentsprófs sem hún hyggst taka á haustönn 2022. Stefnan er tekin á hvíta kollinn í desember 2022.
Emma Þöll segist vera mjög ánægð með námið á listnáms- og hönnunarbrautinni og hún geti sterklega mælt með náminu. Það hafi opnað augu sín fyrir mörgu sem henni hafði ekki áður verið ljóst og málunin hafi komið henni skemmtilega á óvart – allar þær pælingar sem búi að baki málun og sjálft handverkið. „Andinn á listnámsbrautinni er mjög góður og bæði nemendur og kennarar vinna vel saman. Við erum eins og ein stór fjölskylda,“ segir Emma Þöll.
Á haustönn var Emma í áfanga í akrílmálun hjá Björgu Eiríksdóttur. Á þessum myndum er Emma við málverkið sem hún málaði í áfanganum. Það hangir nú uppi á vegg gegnt austurinngangi VMA.
Emma brosir breitt þegar hún rifjar upp að í einum áfanga á listnámsbrautinni hafi henni verið ljóst að hún væri litblind eða í það minnst með eina útgáfu litblindu. Í ljós hafi komið að hún ætti erfitt með að greina á milli líkra lita – t.d. rauðs litar og brúns. Allir meginlitirnir væru henni ljósir en svo vandaðist málið þegar hún væri t.d. að vinna með dökkgrænan og ljósgrænan lit. Emma segir að þetta hafi ekki valdið henni teljandi erfiðleikum í listsköpuninni en henni hafi ekki verið litblindan ljós fyrr en hún fór að vinna markvisst með litabrigði í náminu í VMA. Hún sagði að litblinda væri þekkt í sinni fjölskyldu og því hefði ekki komið henni á óvart að hún væri líka með snert af litblindu.
Emma Þöll segir að langt sé síðan hún ákvað að fara í listnám. Hún fæddist og ólst upp á Húsavík og var þar í grunnskóla upp í níunda bekk – tíunda bekkinn tók hún í Valsárskóla á Svalbarðsströnd og síðan lá leiðin í VMA. „Áhugann á þessu tel ég að megi rekja til þess að ég var stundum með Gunnari Júlíussyni langafa mínum þegar hann var að mála. Ég hugsa að hann hafi kveikt áhuga minn á því að læra myndlist,“ segir Emma Þöll.
En hvaða hugmyndir hefur Emma um framtíðina, hvert stefnir hún eftir stúdentspróf frá VMA? Hún segist vera óráðin hvað taki við en hún sé ákveðin í því að fara í háskólanám enda finnist henni „mjög skemmtilegt í skóla“. Lengi hafi hún horft til arkitektúrs og það komi líka til greina að verða listkennari. „En ég er ákveðin í því að vinna smá eftir að ég lýk náminu í VMA og nýta þann tíma til þess að finna út í hvað ég geri í framhaldinu."