Skilafrestur í ritlistakeppni Ungskálda til og með 16. nóvember
Á dögunum var efnt til ritlistasmiðju á vegum Ungskálda í VMA þar sem Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur og Snæbjörn Ragnarsson - Bibbi í Skálmöld gáfu þátttakendum góð ráð um skriftir. Í framhaldi af þessari smiðju er nú efnt til ritlistakeppni fyrir ungt fólk, eins og undanfarin ár, og er hún opin öllum á aldrinum 16-25 ára. Það skal skýrt tekið fram að til þess að taka þátt í keppninni er ekki skilyrði að hafa tekið þátt í ritlistasmiðjunni.
Engar hömlur eru á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd, en hann þarf að vera á íslensku. Um getur verið að ræða smásögur, ljóð eða hvað sem þátttakendum dettur í hug að setja á blað. Skilafrestur á innsendum verkum er til og með föstudeginum í næstu viku, 16. nóvember, sem er Dagur íslenskrar tungu.
Þátttakendur skulu senda skrif sín á netfangið ungskald@akureyri.is. Tilkynnt verður um sigurvegara í keppninni á Amtsbókasafninu á Akureyri fimmtudaginn 6. desember nk. kl. 17. Veitt verða peningaverðlaun fyrir þrjú efstu sætin í ritlistakeppninni.
Að verkefninu Ungskáld, sem mun vera einstakt á öllu landinu, standa Akureyrarstofa, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri, Ungmennahúsið í Rósenborg, Amtbókasafnið, Sóknaráætlun Norðurlands eystra og N4.