Skoðuðu hársöguna
Á þriðju önn í hársnyrtiiðn sitja nemendur áfanga í iðnfræði og er þar komið víða við. Meðal annars skrifa nemendur ritgerð að eigin vali og kynna hana undir lok annarinnar. Nemendur velja að fjalla um eitthvert ákveðið tímabil í sögunni út frá ekki síst hártísku en einnig förðun, fatatísku o.fl. Útkoman verður oft mjög skemmtileg.
Hártískan hefur heldur betur tekið breytingum í tímans rás og tengist sterkt tímabilum í heimssögunni. Nefna má keisaratímann, bítlatímann, rokktímann og pönktímann.
Í gær var komið að því að nemendurnir átta kynntu ritgerðir sínar um hársöguna og að vanda kenndi þar ýmissa grasa. Bæði var um einstaklings- og samstarfsverkefni að ræða og var útkoman fjölbreytt. Áhersla er lögð á að nemendur komi með eitthvað á kynningar sem minna á þann tíma sem um er fjallað.
Einn nemandinn kom með ýmislegt frá ömmu sinni sem var hárgreiðslukona á Akureyri, bæði ýmis efni og vinnufatnað, fjölmargt sem ekki er lengur notað. „Það var mjög gaman að sjá þetta, margt af þessu hef ég aldrei augum litið,“ segir Hildur Salína Ævarsdóttir, kennari.
Annar nemandi beindi augum sínum að þeim tíma þegar þungarokkið var í sem mestum blóma – raunar sá angi þungarokksins sem kallast Þrass – sem er ákveðin undirdeild í þungarokkinu. Engin tilviljun var að Þrassið var umfjöllunarefnið í þessari ritgerð því faðir nemandans var og er Þrass-aðdáandi og hann hafði á sínum tíma keypt föt á börn sín sem tengdust þessari tónlistarstefnu.