Skólafundur og könnun Þórdunu
Efnt var til sameiginlegs skólafundar starfsmanna og nemenda í Gryfjunni í dag, mánudag, þar sem fundarefnið var þær hugmyndir sem fram hafa komið um sameiningu VMA og MA í einn framhaldsskóla. Fyrst og fremst var fundurinn hugsaður til þess að upplýsa og gefa starfsmönnum og nemendum kost á að tjá sína skoðun og fá svör við spurningum sem hafa vaknað. Í byrjun fundarins höfðu stuttar framsögur Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari og Ásbjörg Benediktsdóttir íslenskukennari. Fundarstjórn var í höndum Hönnu Þóreyjar Guðmundsdóttur, sem veitir bókasafni VMA forstöðu.
Í máli Ásbjargar kom m.a. fram að stjórn kennarafélags VMA hafi ekki haft tækifæri til þess að fara með formlegum hætti yfir málið en til standi að hún hittist í þessari viku.
Á fundinum kynnti Þórduna, nemendafélag Verkmenntaskólans á Akureyri, niðurstöður könnunar sem Þórduna gerði í liðinni viku meðal dagskólanemenda VMA á mögulegri sameiningu VMA og MA. Af tæplega 900 nemendum tóku um 400 þátt í könnuninni.
Af þeim nemendum sem tóku þátt í könnuninni sögðust 59% að þeim litist frekar eða mjög illa á sameiningu en 41% frekar vel eða mjög vel á sameiningu.
Þegar svörin eru greind frekar er niðurstaðan sú að 13% svarenda líst mjög vel á sameiningu, 28% frekar vel, 39% frekar illa og 29% mjög illa. Það er því ekki einhugur í afstöðu nemenda til málsins. Nokkur munur er á milli svara iðn- og starfsnema og nemenda á stúdentsprófs- og öðrum námsbrautum.
Aðrar helstu niðurstöður voru þær að 36% þeirra sem svöruðu höfðu kynnt sér efni skýrslu starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um eflingu framhaldsskóla en aðeins 14% þeirra sem tóku þátt í könnuninni mættu á kynningarfundinn í Hofi.
Í könnuninni var mest afgerandi svörun við aukaspurningu um hvernig líðan nemenda væri í VMA. Af þeim sem svöruðu sögðu 42% nemenda að sér liði mjög vel, 53% frekar vel, 4% frekar illa og 1% mjög illa.
Sjá nánar hér.