Skólahópur frá Belgíu í heimsókn í VMA
Fyrir tæpum þremur árum, undir lok maí 2019, fór hópur starfsmanna VMA til Brussel í Belgíu og kynnti sér þar starfsemi nokkurra skóla og stofnana. Meðal annars fór hluti hópsins í heimsókn í list- og bóknámsskólann Atheneum Anderlecht, sem hefur á ýmsan hátt ekki ólíkar áherslur í námi og listnáms- og hönnunarbraut VMA. Út frá þessari heimsókn sköpuðust tengsl við þennan skóla og í gær kom síðan hópur átta nemenda og með þeim tveir kennarar frá skólanum í heimsókn í VMA.
Á móti gestunum tóku kennararnir Jóhannes Árnason og Véronique Legros og Dagný Hulda Valbergsdóttir, sem heldur utan um erlend samskipti í VMA. Þau kynntu fyrir þeim starfið í VMA auk fróðleiksmola um Ísland.
Þessi skóli í Anderlecht er töluvert minni en VMA, með um þrjú hundruð nemendur. Hann býður upp á blöndu bóknáms og listnáms af ýmsum toga, t.d. málun, ljósmyndun og myndbandagerð. Stefan Tavernier-Laurens, annar tveggja kennara með hópnum, segir að nemendur greiði sjálfir fyrir hluta ferðarinnar en einnig hafi þeir fengið greitt upp í kostnaðinn við ferðina fyrir myndbönd sem þeir hafi unnið fyrir ýmis fyrirtæki.
Fyrst og fremst er þessi ferð til að upplifa Ísland og kynna sér framandi náttúru og menningu. Enginn nemendanna hefur áður komið hingað til lands. Heimsóknin í VMA í gær er eina skólaheimsókn hópsins í ferðinni. Frá Akureyri heldur hann áfram austur á land og verður, í þessari tíu daga ferð, ekið hringinn í kringum landið.
VMA þakkar fyrir heimsóknina og óskar hópnum góðrar og gleðilegrar ferðar um landið.