Mikill léttir að skólastarf hefjist aftur
Kennsla hefst í dag í VMA samkvæmt stundaskrá, eftir þriggja vikna kennaraverkfall. Hjalti Jón Sveinsson, skólameistara, segir það vera mikinn létti að skólastarf geti hafist á ný. Það mun skýrast seinnipartinn í dag með hvaða hætti skólaárinu verði lokið í VMA.
Eins og komið hefur fram tókust kjarasamningar Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum og ríkisins sl. föstudag og var þá verkfalli aflýst. Verkfallið stóð í þrjár vikur og því féllu út 15 kennsludagar.
Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari, segir ánægjulegt að náðst hafi samkomulag og skólastarf geti hafist á ný. Hann segir ekki ljóst með hvaða hætti skólaárinu verði lokið í VMA, en það muni skýrast í dag. Ákvörðun um það verði tekin í samráði skólastjórnenda við kennara, annað starfsfólk og nemendur. Mest um vert sé að nemendur verði fyrir sem allra minnstu tjóni af verkfallinu. Að því verði unnið.
Hjalti Jón hvetur nemendur til þess að mæta vel í skólann eftir þetta þriggja vikna uppihald þannig að unnt verði að ljúka skólaárinu með þeim sem allra best. Hins vegar segist skólameistari, í ljósi reynslu af fyrri kennaraverkföllum, óttast að einhverjir nemendur hverfi frá námi.