Skólinn byrjaður - félagslífið í fullan gang
Um leið og skólastarfið fer í fullan gang hefst félagslífið af krafti. Því stýrir stjórn nemendafélagsins Þórdunu, sem var kjörin undir lok vorannar. Formaður Þórdunu er Eyþór Daði Eyþórsson og gegnir hann formannsstöðunni annað árið í röð.
Stjórn Þórdunu er nú þegar búin að hittast og leggja línur fyrir veturinn. Það fyrsta í félagslífi vetrarins verður, að venju, að bjóða nýnema velkomna í skólann. Það verður gert nk. miðvikudag þegar efnt verður til nýnemaferða út fyrir bæjarmörkin. Skipulagning ferðanna er í höndum skólans en Þórduna mun leggja sín lóð á vogarskálarnar. Daginn eftir verður nýnemahátíð í skólanum, sem Þórduna stendur, fyrir og á fimmtudagskvöld verður efnt til nýnemaballs. Nánari upplýsingar um þetta í næstu viku.
Eyþór formaður segir að í stórum dráttum verði félagslífið í vetur með nokkuð hefðbundnu sniði. Stórviðburðirnir verði á sínum stað, Sturtuhausinn - söngkeppni VMA verður síðari hluta janúar, í febrúar er stefnt að frumsýningu á leiksýningu Leikfélags VMA og árshátíðin verður á sínum stað í mars. Eyþór segir að auk þessara stóru viðburða sé ætlunin í vetur að leggja meiri áherslu á minni viðburði sem kosti lítið að taka þátt í. Nemendafélagið mun kynna þetta betur síðar.
Ákveðið hefur verið hvaða leikrit verður sett upp í vetur og segist Eyþór vænta þess að unnt verði að opinbera nafn þess í næstu viku í tengslum við nýnemahátíðina.
Þess má geta að auk stjórnarmanna sem voru kjörnir sl. vor til þess að sitja í stjórn Þórdunu hefur Bergvin Þórir Bernharðsson tekið að sér embætti gjaldkera Þórdunu.