Skráning í fjarnám í fullum gangi
Skráning í fjarnám VMA á haustönn er nú í fullum gangi og er ástæða til að hvetja fólk sem hyggst stunda fjarnám að skrá sig sem allra fyrst. Kennsla fjarnema hefst síðan fimmtudaginn 5. september nk.
Fjarnám á sér stað með tölvusamskiptum milli nemenda og kennara og eðli málsins samkvæmt eru engin landamæri í því hvar nemendurnir eru staðsettir. Í gegnum tíðina hafa nemendur í fjarnámi í VMA verið út um allt land og þá eru alltaf nokkrir nemendur búsettir erlendis í fjarnámi í VMA. Að ógleymdum nemendum í dagskóla sem margir taka einstaka námskeið í fjarnámi ef stundatafla þeirra býður upp á það og með því móti geta þeir líka flýtt fyrir sér í námi. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag þessara tölvusamskipta milli nemenda og kennara má kynna sé hér
Hver einig í fjarnáminu kostar 5000 kr. og innritunargjald er 6000 kr. Umsækjendur eru hvattir til þess að kynna sér endurgreiðslur stéttarfélaga sinna vegna fjarnámsins. Annað hvort er unnt að gefa upp greiðslukortanúmer vegna uppgjörs á skólagjöldum eða fá fær sendan greiðsluseðil.
Ingimar Árnason, kennslustjóri fjarnáms í VMA, segir að leitast sé við að hafa námsframboðið sem fjölbreyttast, en það má sjá hér. Sem dæmi eru kenndir fjölmargir áfangar til stúdentsprófs og það býður sömuleiðis upp á stóran hluta af bóklegu námi til sjúkraliða og þá segir Ingimar að fjarnám VMA njóti sérstöðu fyrir að bjóða upp á bróðurpartinn af meistaraskólanum, en það nám stendur þeim til boða sem lokið hafa sveinsprófi í iðngreinum.
Sem fyrr segir stendur nú yfir skráning í fjarnám í VMA. Allar upplýsingar um fjarnámið veitir Ingimar kennslustjóri í síma 464 0300 eða í gegnum netfangið ingimar@vma.is