Fara í efni

Skuggakosningar í dag

Atkvæði sett í kjörkassann í skuggakosningunum í VMA í dag.
Atkvæði sett í kjörkassann í skuggakosningunum í VMA í dag.

Í dag eru skuggakosningar í VMA undir nafninu Ég kýs. Kosningarnar eru í kjölfarið á vel heppnuðum framboðsfundi í Gryfjunni í gær þar sem fulltrúar allra þeirra framboða sem bjóða fram um allt land fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember kynntu framboð sín og svöruðu fyrirspurnum.

Slíkar skuggakosningar eru settar upp í framhaldsskólum landsins og eru hugsaðar til þess að efla lýðræðisvitund framhaldsskólanema. Allir framhaldsskólanemar hafa atkvæðisrétt, bæði þeir sem eru undir átján ára aldri og þeir sem hafa náð 18 ára aldri á kjördag. Nemendur greiða atkvæði eins og ef um væri að ræða alvöru kosningar og á kjörseðlinum eru nöfn allra þeirra framboða sem eru í kjöri til alþingiskosninganna annan laugardag, 30. nóvember nk.

Kjörfundur stendur yfir í Gryfjunni í dag og er kjörstaður á sviðinu. Þar fá nemendur kjörseðla og fara síðan í kjörklefa og greiða atkvæði. Allt eftir kúnstarinnar reglum og reynt er að líkja sem mest og best eftir kjörfundi í alvöru kosningum.

Atkvæði allra þeirra framhaldsskólanema sem greiða atkvæði í skuggakosningunum verða síðan talin á einum stað og niðurstöður þeirra verða að öllum líkindum kynntar áður en fyrstu tölur í alþingiskosningunum verða kynntar að kvöldi kjördags. Þá kemur í ljós hvort atkvæði framhaldsskólanema falla með líkum hætti og niðurstöður kosninganna 30. nóvember nk.