Smám saman að læra að rata
Rannveig Helgadóttir er í hópi þeirra 36 nýnema sem eru núna á fyrstu önn í byggingadeild. Þegar litið var inn í kennslustund var Ketill Sigurðarson að kenna einum af þremur nýnemahópum í byggingadeildinni réttu handbrögðin við að brýna hefiltennur og sporjárn. Þetta er eitt af grunnatriðunum sem nemendur þurfa að læra og tileinka sér í upphafi náms og síðan er lögð rík áhersla fyrstu vikurnar á öryggismálin og réttu handbrögðin við vélbúnaðinn – sagir, hefla, bora o.s.frv. Öllum ströngustu öryggiskröfum skal fylgt og ítrustu varfærni gætt.
Rannveig er búsett í Þingeyjarsveit, nánar tiltekið á bænum Vatnsenda við Ljósavatn. Skammt frá er gamli grunnskólinn hennar, Stórutjarnaskóli, en honum lauk hún sl. vor. Þá var komið að þeirri ákvörðun hvert skyldi stefna í framhaldsskóla. Verknám heillaði Rannveigu frekar en hreint bóknám og því varð VMA fyrir valinu. Það dró ekki úr áhuga hennar á VMA að eldri systir hennar, Heiðrún Harpa, er og hefur stundað nám í rafdeildinni og tvíburasystir Rannveigar, Þórunn, ákvað að fara í grunndeild málmiðna og stefnir í framhaldinu á vélstjórn. Það eru því þrjár systur frá Vatnsenda við nám í ólíkum iðngreinum í VMA. Rannveig segir að þær systur hafi grínast með að í framtíðinni væri alveg gráupplagt að þær myndu leggja saman krafta sína og kunnáttu og ráðast í eitthvert ögrandi verkefni – kannski að byggja og setja upp rafstöð! Hver veit nema að af því verði í framtíðinni?
Rannveigu líst vel á smíðarnar og skólann það sem af er. Hún segir að óneitanlega sé VMA miklu stærri skóli en Stórutjarnaskóli enda mikill munur á nemendafjölda; á Stórutjörnum hafi verið í það heila um fjörutíu nemendur en í VMA séu þeir á ellefta hundrað. „Þetta er stór skóli og ég er smám saman að læra að rata um hann og átta mig á hvar kennslustofurnar eru. En þetta kemur fljótt og mér líst mjög vel á framhaldið,“ segir Rannveig Helgadóttir.