Smíðanemi með þrjár háskólagráður!
Sá merki maður Georg Bjarnfreðarson flaggaði því ótt og títt að hafa fimm háskólapróf upp á vasann. Erling Ragnar Erlingsson er fimmtugur smíðanemi á fyrsta ári í VMA og hann er ríflega hálfdrættingur á við Georg, með þrjár háskólagráður í farteskinu – kandidatspróf í bókmenntasögu, MBA-nám í viðskiptum og meistarapróf í viðskiptafræði. Erling líkar smíðanámið vel og stefnir á húsgagnasmíði í byggingadeildinni. Gamall draumur er að rætast.
Erling er fæddur og uppalinn í höfuðborginni. Hann flutti til Akureyrar haustið 2011 ásamt eiginkonu sinni, sem er frá Akureyri og réði sig til starfa sem rekstrarstjóri Lunds rekstrarfélags um heimavist MA og VMA. Síðastliðinn vetur nýtti Erling að hluta til þess að skrifa meistararitgerð sína í viðskiptafræði við HÍ. Hann brautskráðist síðan sl. vor og ákvað síðan að venda sínu kvæði í kross og drífa sig í smíðanám í VMA.
„Þetta er gamall draumur, sem ég ákvað að láta rætast. Ég var búinn að fá nóg af kyrrsetuvinnu og vildi prófa eitthvað nýtt. Ég hef alltaf haft gaman af því að dunda mér við smíðar og fleira og ég ólst upp við það að bjarga mér. Eldri bróðir minn er húsasmíður og annar er blikk- og prentsmiður. Pabbi var rennismiður og hann keypti aldrei þjónustu iðnaðarmanna – gerði sem sagt allt sjálfur. Maður ólst því upp við að bjaga sér,“ segir Erling.
Erling varð stúdent frá MS árið 1982 og kenndi að því loknu í tvö ár á Reyðarfirði. Síðan lá leiðin til Árósa í Danmörku þar sem hann var í sex ár og lauk kandidatsprófi í bókmenntasögu. Reyndar fór Erling út með það í huga að fara í blaðamannaháskólann í Árósum, en það krafðist góðrar dönskukunnáttu og til þess að ná tökum á tungumálinu innritaði hann sig í bókmenntasöguna og úr varð að hann hélt áfram í því námi og lauk því og tók því næst MBA-nám í viðskiptum. Að námi loknu var Erling um tíma verslunarstjóri bókabúðar í Ringsted í Danmörku, en kom aftur heim til Íslands síðla árs 1991 og tók að sér starf útgáfustjóra hjá Ísafoldarprentsmiðju. Síðan lá leiðin í verslun Máls og menningar við Laugaveg þar sem Erling var verslunarstjóri í nokkur ár. Hann starfaði síðan um tíma hjá Skeljungi og færði sig síðan yfir í farsímageirann – fyrst hjá Tali, sem þá hét Hið íslenska farsímafélag. Fór síðan til Englands og starfaði þar á fimmta ár í viðskiptum tengdum símafyrirtækjum. Eftir að Erling kom aftur heim til Íslands réði hann sig til starfa hjá Iðnú-bókaútgáfunni, sem gefur m.a. út námsbækur fyrir iðngreinar – þar á meðal trésmíði.
„Hjá Iðnú starfaði ég í um átta ár, en síðan þegar konu minni bauðst að taka að sér starf hér á Akureyri gripum við gæsina fegins hendi og ég er afar ánægður með að vera kominn hingað, því hér á Akureyri hefur mér alltaf liðið vel. Og ég ákvað þá í leiðinni að láta þennan draum minn rætast að fara í smíðanám. Eins og staðan er núna hef ég ekkert annað í hyggju en að klára þetta nám, fara á samning og taka sveinspróf. Það verður síðan að koma í ljós hvort maður starfar við húsgagnasmíðina eða ekki í framtíðinni. Ég kann afar vel námið og það verður alltaf skemmtilegra og skemmtilegra. Aðstaðan hér er til fyrirmyndar og kennararnir eru mjög góðir og með mikla reynslu,“ segir Erling Ragnar Erlingsson.
oskarthor@vma.is