Smíðarnar vörðuðu veginn

Það verður aldrei nógu oft undirstrikað hversu mikla og góða möguleika það veitir nemendum úti á vinnumarkaðnum og fyrir frekara nám – ef þeir kjósa svo - að fara í verknám og taka síðan viðbótarnám til stúdentsprófs. Mörg dæmi eru um að slík námssamsetning opni nemendum mikla möguleika. Gott og augljóst dæmi um þetta er Ester María Eiríksdóttir. Skoðum hennar sögu nánar.
Ester María er frá Hofsósi og gekk þar í grunnskóla en haustið 2017 hóf hún nám í byggingadeild VMA. Hún hafði ekki ætlað sér að fara í verknám, sá bara bóknám fyrir sér en snerist hugur á síðustu stundu og ákvað að fara í húsasmíði. Við nánari skoðun sá Ester þann möguleika að ljúka verknámi og taka jafnframt stúdentspróf og þar með taldi hún sig standa sterkar að vígi fyrir áframhaldandi nám. Árið 2019 fékk Ester námsstyrk úr Hvatningarsjóði Kviku.
Vert er að rifja upp það sem Ester segir í viðtali hér á heimasíðu VMA í október 2018, þegar hún var á þriðju önn í húsasmíði:
Ég held að allt of fáir hugsi út í þennan möguleika og ég veit þess dæmi að forráðamenn nemenda ýta á þá að fara í bóknám til þess að ljúka stúdentsprófi, sem er ekki nógu gott. Hjartað verður að ráða för þegar nemendur velja sér nám í framhaldsskóla og það er mikilvægt að við val á námi hafi nemendur það hugfast að þeir eru alls ekki að loka neinum leiðum með því að fara í verknám, þvert á móti eru þeir að styrkja sinn grunn því auk viðkomandi verknáms eru þeim allar leiðir opnar til þess að taka stúdentspróf, eins og ég ætla að gera.
Og það var nákvæmlega það sem Ester gerði. Til að byrja með brautskráðist hún sem húsasmiður frá VMA í desember 2020, fór í sveinspróf í húsasmíði í janúar 2021 og vorið 2021 lauk hún síðan stúdentsprófi frá VMA. Tæpum fjórum árum eftir að Ester hóf nám við VMA var hún komin með starfsréttindi sem húsasmiður og hafði einnig lokið stúdentsprófi – og hélt því öllum gáttum opnum til náms á háskólastigi ef hún kysi að fara þá leið.
Og Ester kaus að fara í frekara nám. Hún rifjar upp að á vorönn 2021, þegar hún var á fullu í að ljúka öllum þeim bóklegu áföngum sem hún þurfti að taka til þess að ljúka stúdentspróf, hafi hún velt vöngum yfir á hvaða nám hún skyldi stefna. Þrjár leiðir hafi komið til greina; byggingarverkfræði, byggingartæknifræði og byggingariðnfræði. Byggingartæknifræði í Háskólanum í Reykjavík varð ofan á haustið 2021. Og núna, hálfu fjórða ári síðar, er Ester útskrifuð sem byggingartæknifræðingur frá HR og komin með lögverndað starfsheiti sem tæknifræðingur – og um leið fékk hún staðfest meistararéttindi í húsasmíði af þeirri ástæðu að hún hafði aflað sér áskilinnar starfsreynslu sem smiður. Með öðrum orðum er Ester nú með starfsréttindi sem byggingartæknifræðingur og hefur jafnframt meistararéttindi sem húsasmiður.
Ester segist hafa fundið sig afar vel í náminu í byggingartæknifræðinni í HR. Eins og vera ber hafi námið verið krefjandi en fyrst og fremst skemmtilegt. Hún segir engum blöðum um það að fletta að húsasmíðanámið í VMA hafi verið henni afar mikilvægur grunnur og undirbúningur fyrir bygggingartæknifræðina – að ekki sé minnst á mikilvægi þess fyrir lífið að hafa lært húsasmíðina. Sú kunnátta komi sér alltaf vel.
Lokaverkefnið í náminu í HR vann Ester María í samstarfi við BM Vallá og Vegagerðina. Á heimasíðu BM Vallár í október sl. segir m.a. um verkefnið:
Ester María kom nýverið á rannsóknarstofu fyrirtækisins til að steypa prófstykki fyrir rannsóknir sínar, sem snúast um að prófa tengingar milli forsteyptra veggeininga í landstöpla brúa. Markmið verkefnisins er að hraða framkvæmdum á verkstað og stuðla þannig að aukinni skilvirkni. Prófanir á veggeiningunum fara fram um mánaðamótin október/nóvember, og er vonast til að niðurstöðurnar leiði til frekari framfara í hönnun og framkvæmd byggingarverkefna.
Ester segir að þetta verkefni, sem hún sjálf lýsir sem hönnun á lóðréttingum tengingum milli forsteyptra eininga – sérstaklega í brúarstöplum, hafi verið mjög áhugavert og það eigi eftir að koma í ljós hvort Vegagerðin nýtir sér niðurstöður þess.
Heldur betur var eftir þessu rannsóknarverkefni Esterar tekið því fyrir það fékk hún nemendaviðurkenningu Steinsteypufélags Íslands á hinum árlega Steinsteypudegi 28. febrúar sl. Þar flutti Ester erindi og kynnti lokaverkefni sitt.
Síðastliðið sumar starfaði Ester að ýmsum byggingartengdum verkefnum á verkfræðistofunni Stoð ehf. á Sauðárkróki og hún hefur haldið áfram að starfa þar eftir að hún lauk náminu í HR í desember sl. (brautskráning í febrúar sl.). En þar með hefur Ester síður en svo látið staðar numið í þekkingaröfluninni því hún stefnir á að hefja í haust meistaranám í byggingarverkfræði – með áherslu á burðarþol - við University of Washington í Seattle í Bandaríkjunum. Þar verður hún á svokölluðum Valle-námsstyrk, sem er norskur styrkur ætlaður nemendum á Norðurlöndunum. Styrkurinn greiðir allt námið, sem að óbreyttu tekur hálft annað ár.
Ester segir að eitt hafi leitt af öðru en hún hafi ekki séð þetta allt fyrir sér þegar hún hóf nám nám við VMA haustið 2017. En eitt hafi hún strax verið ákveðin að gera eftir námið í VMA; að fara áfram í háskólanám. „Mér fannst einfaldlega borðleggjandi að byggja ofan á smíðarnar,“ segir Ester, húsasmíðameistari og byggingartæknifræðingur, á leið í meistaranám í byggingarverkfræði.