Fara í efni

Snocrossararnir í málminum

Snocrossarnir þrír í fullum skrúða í verklegum tíma í grunndeild málmiðnaðar hjá Stefáni Finnbogasyn…
Snocrossarnir þrír í fullum skrúða í verklegum tíma í grunndeild málmiðnaðar hjá Stefáni Finnbogasyni. Frá vinstri: Sigurður Bjarnason, Tómas Rafn Harðarson og Daníel Orri Sigurðsson.

Þrír nemendur í grunndeild málmiðnaðar eiga sameiginlegt áhugamál; vélsleðamennsku og að keppa í snocrossi. Þetta eru þeir Sigurður Bjarnason, sem býr á Akureyri en á sterkar rætur í Ólafsfirði, Tómas Rafn Harðarson frá Grenivík og Daníel Orri Sigurðsson frá Draflastöðum í Fnjóskadal. Þeir félagarnir kepptu í fyrsta mótinu í mótaröð Íslandsmótsins í snocrossi um síðustu helgi og gerðu það heldur betur gott, Sigurður og Tómas Rafn sigruðu sína flokka og Daníel Orri varð í öðru sæti.

Sigurður er fæddur með vélsleðagenin í æðum og hann segist hafa verið á litlum barnasleða frá þriggja ára aldri. Yfir á alvöru snocrosssleða fór hann síðan fyrir þremur árum og hefur verið óstöðvandi síðan.

Það sama var upp á teningnum hjá Tómasi. Hann var ekki hár í loftinu þegar hann byrjaði að keyra á litlum barnasleða en í snocrossinu byrjaði hann á sl. ári.

Daníel Orri segist hins vegar hafa hellt sér í sleðasportið árið 2021 og byrjaði árið eftir að keppa í snocrossinu.

Þeir þremenningar eru sammála um að mikilvægast í snocrosskeppnum sé að hafa hausinn í lagi og gleyma sér ekki í of miklum hugsunum. Skynsemin þurfi að vera leiðarstefið en samt megi hún ekki taka alfarið völdin, það þurfi að leyfa sér að keyra á hlutina og taka áhættu. Það geti vissulega eitt og annað gerst í keppnum þar sem margir sleðar eru á sama tíma í brautinni og það sé alls ekki svo að hræðslan sé víðs fjarri. En það gefi þessu sporti gildi að vera hæfilega hræddur en á sama tíma flæði spennuadrenalínið í ómældu magni.

Það er ekki nóg að vera í góðri keyrsluæfingu til þess að keppa í snocrossi, það er líka nauðsynlegt að vera í góðu líkamlegu formi því þessar keppnir reyna heldur betur á. Bæði þurfa keppendur að vera líkamlega sterkir og búa yfir snerpu og þoli. Strákarnir segjast vera vel meðvitaðir um þetta og reyni að vera í sem bestu formi með því m.a. að fara í ræktina.

En öryggið er sannarlega í fyrirrúmi í snocrossi. Keppendur eru mjög vel varðir og afar strangar reglur gilda um þetta sport til þess að koma í veg fyrir slys. En þrátt fyrir strangar kröfur og reglur geta þó vissulega orðið óhöpp í þessu sporti eins og öðrum íþróttagreinum. En strákarnir segja að engum heilvita manni detti til hugar að fara út í snocrossbraut án þess að vera í réttum hlífðar- og varnarbúnaði og hlíta ströngustu kröfum.

Sem fyrr segir gerðu þeir þrír það gott í fyrstu keppni Íslandsmótsins sem fór fram ofan Akureyrar um síðustu helgi. Sigurður var nú í fyrsta skipti að keppa í Pro-flokki eftir að hafa fært sig úr Sport-flokknum og gerði sér lítið fyrir og stóð uppi sem sigurvegari.

Tómas og Daníel kepptu í unglingaflokki og sem fyrr segir sigraði Tómas flokkinn og Daníel varð annar.

Næsta keppni í Íslandsmeistaramótinu er á dagskrá í Ólafsfirði um aðra helgi, að rúmri viku liðinni. Svo verður að koma í ljós hvernig það gengur því ekki hefur verið mikill snjór á síðustu vikum til þess að keppa á. Og eftir sunnan áhlaupið sem hefur síðustu sólarhringana gengið yfir landið er snjórinn því sem næst alveg horfinn á láglendi. Það er því hætt við að til þess að geta haldið snocrosskeppni í Ólafsfirði um næstu helgi þurfi að keyra ómældu magni af snjó í brautina – eins og raunar var einnig gert í keppninni á Akureyri um liðna helgi.

Að mótinu í Ólafsfirði loknu verða síðan mót í þessari fimm móta mótaröð haldin á Dalvík, í Mývatnssveit og loks á Egilsstöðum.

Strákarnir segja að frá fornu fari hafi Mekka þessa sports verið hér fyrir norðan og í kringum það hafi skapast mjög skemmtilegur félagsskapur, snocrosssamfélagið á Íslandi sé eins og stór fjölskylda. Og í ljósi þess hversu vel gekk um liðna helgi eru þeir sammála um að árangurinn sé þeim öllum mikil hvatning að halda áfram og bæta sig í sportinu.

Keppnissleðana segjast þeir eiga sjálfir. Eftir hverja keppni laskast þeir á einn eða annan hátt og þá þarf með góðra manna hjálp að leggjast í viðgerðir. 

Allir eru snocrossararnir þrír mjög ánægðir með námið í grunndeild málmiðnaðar. Að henni lokinni stefnir Daníel stefnir á bifvélavirkjun, Tómas ætlar í vélvirkjun og Sigurður í vélstjórnarnám.