Snorri hlaut jafnréttisviðurkenningu Akureyrarbæjar fyrir kynjafræðikennslu
Snorri Björnsson, kennari við VMA, hlaut í síðustu viku jafnréttisviðurkenningu Akureyrarbæjar 2021 fyrir kennslu sína í kynjafræði í VMA. Snorri segir viðurkenninguna hafa komið sér skemmtilega á óvart.
„Ég hef kennt kynjafræði hér við skólann síðan á vorönn 2013. Áður bjó ég til áfanga um karlmennsku sem ég kenndi á brautabrú. Það kom til af því að á þeim tíma boðið upp á áfanga á brautabrú sem var eingöngu ætlaður stelpum og hét Lífsstíll og snyrting, ef ég man rétt. Ég velti fyrir mér af hverju strákarnir mættu ekki sækja þennan áfanga og nokkrir strákar höfðu orð á því líka. Í framhaldinu fékk ég áskorun um að búa til áfanga fyrir strákana og þá varð karlmennskuáfanginn til. Hins vegar var ég ekki alveg viss um hvort ég væri rétti maðurinn til þess að kenna þetta námsefni því ég hafði ekki menntun á þessu sviði. Ég tók á sínum tíma BA próf í bókmenntafræði með nútímafræði sem aukagrein og hef fyrst og fremst kennt bókmenntaáfanga í íslensku.
Í tengslum við þennan karlmennskuáfanga fór ég að skoða karlaheiminn út frá því sem ég þekkti, t.d. bókmenntum, kvikmyndum, tölvuleikjum og fjölmiðlum, og varpaði fram spurningum um hverjar ímyndirnar væru og hver skilaboðin væru? Til þess að leita svara við þessum spurningum komum við m.a. inn á jafnréttishugtakið, kvenfyrirlitningu og margt fleira.
Allt leiddi þetta til aukins áhuga míns á þessum málum. Í framhaldinu skráði ég mig á námskeið í Endurmenntun HÍ og síðan í nám í kynjafræði í HÍ. Ég hafði í huga að taka meistaranám í kynjafræði en það var í of mikið lagt með fullri kennslu í VMA og úr varð að ég lét nægja diplómanám í hagnýtri jafnréttisfræði. Síðan setti ég upp áfanga í kynjafræði á þriðja þrepi við VMA og hef kennt hann síðan 2013. Reyndar hefur hann ekki verið kenndur í vetur í dagskóla en ég kenni hann í fjarkennslu, eins og ég hef gert síðan 2017.
Það kom strax í ljós að mikil þörf var fyrir slíkan áfanga því fyrst skráðu sig í hann um níutíu nemendur. Kynjafræðin hefur verið valáfangi undir félags- og hugvísindasviði þó svo að hún sé auðvitað þverfagleg grein og hafi víða skírskotun. Núna er rætt um að kynjafræðin verði skylduáfangi á öðru þrepi á félags- og hugvísindabraut skólans,“ segir Snorri og nefnir að töluverð umræða hafi verið í skólakerfinu um nauðsyn þess að kynjafræði verði skylduáfangi fyrir alla í framhaldsskólum. Jafnréttisráð KÍ hafi ályktað í þá veru og sambærileg hvatning hafi komið frá Félagi framhaldsskólanema fyrir nokkrum árum. Snorri segist telja mikla nauðsyn á að efla kennslu um jafnfréttismál í skólakerfinu, enda hafi ákvæði um slíkt verið í jafnréttislögum síðan 1976.
„Ég hef fengið fyrirspurnir frá nemendum sem hafa tekið kynjafræðiáfangann um möguleikann á því að bjóða upp á framhaldsáfanga þar sem yrði kafað dýpra í ýmislegt í þessum efnum. Það er mjög áhugavert en hefur ekki náð lengra að sinni. Þó ég hafi ekki á takteinum útfærsluna myndi ég gjarnan vilja sjá einhvers konar kynjafræðiáfanga fyrir alla nemendur skólans. Það mætti mögulega hugsa sér á fyrsta ári sem hluta af lífsleikni. Frá mínum bæjardyrum séð á kynjafræðin fullt erindi við verknámsbrautirnar því staðreyndin er sú að á mörgum þeirra er kynskiptingin mjög áberandi – í báðar áttir. Á sumum brautanna eru, eins og við vitum, fyrst og fremst karlar en á öðrum eru stelpur í miklum meirihluta,“ segir Snorri.
Í stuttu máli er áfangi Snorra í kynjafræði samfélagsrýni. „Við skoðum samfélagið út frá kynjavinkli. Fjallað er um valdahlutföll, skilaboð – bæði sögð og ósögð, hvernig samfélaginu er skipt út frá kyni, farið er í söguna og horft til þess hvort og þá hvað hafi breyst og hvernig staðan sé í dag. Allt er þetta skoðað frá mörgum sjónarhornum, t.d. í auglýsingum, bókum, kvikmyndum, fjölmiðlum o.s.frv. Það eru endalausir möguleikar til að velta vöngum yfir samfélagsgerðinni út frá kynjafræðinni,“ segir Snorri.
Hann segir að á þeim tæpa áratug sem hann hafi beint sjónum að þessum málaflokki í kennslu séu nemendur víðsýnni og upplýstari með hverju árinu. „Það hefur verið mikil umræða í samfélaginu undanfarin ár um kynjamál, t.d. málefni hinsegin fólks og Metoo, og þessi áfangi er hluti af þeirri umræðu. Fordómar gagnvart feministum voru mjög miklir á tímabili og umræðan um þá var hreinlega rætin. Mér finnst hins vegar að umræðan um feminisma hafi þroskast verulega á allra síðustu árum,“ segir Snorri Björnsson.