Erfiðast með verklega hlutann í vélstjórn
Vélstjórnin er ein þeirra greina í VMA þar sem, eðli málsins samkvæmt, er mikil verkleg kennsla. Búnaður til verklegrar kennslu er að stórum hluta í húsnæði VMA og má í því sambandi nefna hinn fullkomna siglingahermi. Fyrir nemendur er að vonum mikilvægt að geta unnið í herminum og fengið þannig góða þjálfun.
„Í verklega hlutanum höfum við eðlilega ekkert getað gert frá því að skólanum var lokað. En ég veit til þess að kennarar hafa farið ýmsar leiðir í kennslunni, til dæmis að fela nemendum að horfa á myndbönd og út frá þeim eru síðan unnin verkefni. Í einhverjum áföngum hefur áhersla verið lögð á bóklega hlutann en verklega hlutanum er slegið á frest að svo komnu máli. Almennt tel ég að bóklegu áfangarnir hafi gengið bærilega vel,“ segir Gunnar Möller, brautarstjóri í vélstjórn.
Varðandi þá nemendur sem stefna að brautskráningu í vélstjórn í vor segir Gunnar heppilegt að þeir hafi lokið nánast öllu verklegu og séu á þessari önn fyrst og fremst í bóklegum áföngum. Því ættu þeirra áætlanir ekki að raskast. Hins vegar séu brautskráningarnemar að vinna lokaverkefni í námi sínu og þau séu af ýmsum toga. Aðstöðuna í skólanum hafi nemendur getað nýtt sér til smíðavinnu en hana sé hægt að vinna annars staðar. Gunnar segist vita til þess að nemendur hafi breytt lokaverkefnum sínum til samræmis við nýjan og breyttan raunveruleika.
„Mitt mat er að þetta sé hvað erfiðast fyrir nemendur á fyrstu tveimur árunum í vélstjórn því hjá þeim er verklegi þátturinn svo stór hluti af náminu,“ segir Gunnar.