Fara í efni

Einstakt handverk á útihurð úr Aðalstræti 32

Hurðin góða í húsakynnum byggingadeildar VMA.
Hurðin góða í húsakynnum byggingadeildar VMA.

Í húsakynnum byggingadeildar VMA hefur síðustu daga verið til sýnis forláta hurð sem er engin venjuleg hurð. Þetta er útihurð úr húsi í Innbænum á Akureyri, nánar til getið Aðalstræti 32. Eigendur hússins, Kristinn Björnsson og Edda Sigrún Friðgeirsdóttir, fólu völundarsmiðnum Sæmundi Friðfinnssyni að gera hurðina upp. Henni verður komið fyrir á sinn stað í bakhúsi Aðalstrætis 32, tæplega níutíu ára gamalli hlöðubyggingu sem nú er að ganga í endurnýjun lífdaga. En áður en hurðin verður sett á sinn stað verður hún máluð í sama rauðleita litnum og útihurðin í höfuðinnganginum á framhlið hússins. 

Stefán Jóhannesson, húsasmíðameistari á Akureyri, hafði forgöngu um að koma hurðinni upp í VMA til þess að sýna verðandi smiðum hvernig unnið er að því að gera upp slíka gamla muni. Sæmundur Friðfinnsson hefur ekki mörg orð um hvernig honum hafi tekist að tjasla hurðinni saman á svo eftirtektarverðan hátt. Þetta sé handverk sem hann hafi kynnst þegar hann starfaði á sínum tíma með Kristjáni Péturssyni. Ekki er fjarri því að hann hafi fengið hurðina í hendur ósamsetta í poka og við tók púsluspilið að koma henni aftur heim og saman og bæta við því sem þurfti til að gripurinn yrði heillegur á nýjan leik.

Hér eru nokkrar myndir af hurðinni, teknar í rými byggingadeildar VMA. Eins og sjá má hefur hér heldur betur verið nostrað við hlutina. Slíkar lagfæringar eða endurgerð er ekki á færi nema fárra smiða. Þetta er einstakt handverk og unnið eins og gert var í gamla daga, handverk sem mögulega heyrir sögunni til áður en langt um líður. Hurðin er úr furu, gömlum gæðaviði. Slíkan við er ekki auðvelt að fá nú til dags nema eftir krókaleiðum. Stefán Jóhannesson húsasmíðameistari á Akureyri lumaði á nokkrum fjölum sem hann hafði fengið úr timburlagernum sem Kristján Pétursson húsasmíðameistari á Akureyri hafði safnað að sér um dagana. Þar leyndist úrvals viður sem Sæmundur skeytti af listfengi inn í gömlu hurðina.

Sæmundur, sem er 81 árs að aldri, hefur mikla og langa reynslu af uppgerð gamalla húsa. Hann starfaði lengi með Kristjáni Péturssyni (1947-2005) húsasmíðameistara á Akureyri sem kom að endurbyggingu ófárra gamalla friðlýstra húsa á Akureyri og víðar á Norðausturlandi. Og á síðustu árum hefur Sæmundur lagt Stefáni Jóhannessyni lið við endurgerð gamalla húsa.

Aðalstræti 32 er alveg sérstakur kapítuli í byggingarsögu Akureyrar. Arnór Bliki Hallmundsson, kennari við VMA og grúskari í húsagerðarlist á Akureyri til margra ára, hefur sett upp lista um elstu hús á Akureyri og samkvæmt honum er Aðalstræti 32 átjánda elsta hús bæjarins sem enn stendur, elsti hluti þess var byggður 1854. Aðalstræti 32 var miðpunkturinn í heimildamynd Gísla Sigurgeirssonar fyrrv. fréttamanns á RÚV sem hann kallaði Kjarnakonur og fjallaði um Kristínu Eiríksínu Ólafsdóttur (1901-2002) og Jóhönnu Þóru Jónsdóttur (1900-2006). Þessar kjarnakonur bjuggu í áratugi saman í Aðalstrætinu. Eiginmaður Kristínar var Jón Pálsson (1885-1972) trésmíðameistari

Það er óhætt að segja að Aðalstræti 32 hafi fengið nýtt líf á liðnum árum. Eigendur þess í dag, Kristinn og Edda, réðust í endurbyggingu hússins árið 2012. Kristinn segir að ekki sé nákvæmlega vitað um aldur þessarar útihurðar en hún sé úr bakbyggingu, hlöðu, sem var væntanlega reist árið 1936.

Á bls. 44 í Húsakönnun - Fjaran og Innbærinn 2012 eru eldri myndir af húsinu og upplýsingar um það.

Ég hef ekki vitneskju um hvort hurðin var ný þá en ég hugsa að Jón Pálsson afi minn hafi smíðað hana. En hversu gömul furan í hurðinni er veit ég ekki.
Það kom ekkert annað til greina en að láta gera þessa hurð upp, eins og allar aðrar hurðir í húsinu. Afi og amma keyptu húsið 1929 og hann byggði síðan við það. Hurðin var mjög fúin, sérstaklega var fótstykkið orðið mjög lélegt. Það lá því fyrir að ráðast yrði í gagngerar endurbætur á henni.
Við byrjuðum á endurbyggingu hússins árið 2012 og fluttum inn í það árið 2016. Áður höfðum við farið í framkvæmdir bakvið húsið því brekkan hafði skriðið fram og var komin alveg að húsinu. Það fyrsta í þessu verki var því 2005 þegar var grafið frá húsinu og drenlögnum komið fyrir. En síðan liðu árin og við byrjuðum aftur 2012. Hugmynd okkar var upphaflega að nýta húsið sem hálfgerðan sumarbústað og einkaminjasafn en síðan þegar komið var að lokum endurbótanna hugsuðum við með okkur að það væri ekki annað hægt en að flytja inn í húsið. Við færðum okkur því úr Víðimýrinni þar sem við bjuggum áður en endurnýtingin á því húsi var sú að sonur okkar og hans fjölskylda flutti inn í það! Þegar við fluttum í Aðalstrætið árið 2016 var endurbyggingunni lokið að öðru leyti en því að út af stóð gamla hlaðan, sem við erum núna að vinna að því að endurbyggja.
Ég er alinn upp innan um tóma smiði því pabbi var smiður og báðir afar mínir sömuleiðis. Það má því segja að það hafi verið hálfgert skipbrot að ég skyldi fara í aðra átt. En hins vegar verð ég að segja að endurbygging Aðalstrætis 32 er það skemmtilegasta sem ég hef ráðist í um ævina. Ég treysti mér hins vegar ekki til þess að gera útihurðina upp enda bý ég ekki yfir kunnáttu til þess. Ég fékk því Sæmund til þess að taka það verkefni að sér og útkoman er hreint ótrúleg. Hann er náttúrlega algjör snillingur! Það verður gaman að sjá hurðina á sínum stað í gömlu hlöðunni eftir að búið verður að mála hana.

Hér má sjá hvar gamla útihurðin verður sett. Núna fyllir þessi bráðabirgðaútihurð upp í hurðargatið

Kristinn og Edda hafa haft að leiðarljósi við endurbygginguna að hafa allt eins nálægt því upprunalega og mögulegt er. Þess vegna kom aldrei annað til greina en að láta gera umrædda útihurð upp og sem fyrr segir verður hún sett á sinn stað í gömlu hlöðunni sem mun með tíð og tíma verða að gistirými fyrir börnin og barnabörnin, eins og Kristinn orðar það.

Við endurbyggingu hússins breyttist nýting rýmanna. Þannig varð t.d. gamla fjósið að þvottahúsi og gamla trésmíðaverkstæðið í bakhúsinu er nú borðstofa. Í það heila er gólflötur hússins um tvö hundruð fermetrar. Það er hreinlega ævintýri líkast að ganga um vistarverurnar og sjá hvernig eigendur þess hafa leyst úr vandasömum verkefnum, nostrað við hlutina í því skyni að bera í ríkum mæli virðingu fyrir sögunni. Það segir sína sögu að til þess að fanga tíðarandann sem best frá löngu liðnum tíma hafði Kristinn allar klær úti til þess að finna slökkvara sem líktust þeim slökkvurum sem voru áður í húsinu. Og viti menn, með mikilli yfirlegu tókst að finna slíka slökkvara í Ástralíu. Og auðvitað voru slökkvararnir þá bara pantaðir frá Ástralíu og þeir njóta sín afburða vel í Aðalstrætinu.

Það er engu um það logið að Aðalstræti 32 er bæjarprýði og Kristni og Eddu og öllum sem að endurbótum hússins komu til mikils sóma. Árið 2017 fengu þau hjónin verðskuldaða viðurkenningu Húsverndarsjóðs Akureyrar fyrir endurbyggingu hússins. Í október það ár birtist þetta viðtal við þau í Landanum á RÚV.

Þessi mynd var tekin sl. laugardag fyrir framan Aðalstræti 32. Frá vinstri: Stefán Jóhannesson húsasmiður, húseigandinn Kristinn Björnsson og Sæmundur Friðfinnsson húsasmiður, sem á heiðurinn af endurgerð umræddrar útihurðar í Aðalstræti 32. Það segir sína sögu um hversu mikið völdunarhús Aðalstrætið er að í það heila eru sjö útihurðir á húsinu!