Sólarsamba á sumardeginum fyrsta!
Óhætt er að segja að sumarið hafi heilsað hlýlega á Akureyri að þessu sinni. Bærinn er baðaður sól og hitagráðurnar margar. Þó svo að flestir séu í fríi í tilefni dagsins hefur skólastarf í VMA verið í fullum gangi í dag. Sem liður í því að vinna til baka nokkra daga sem töpuðust í kennaraverkfallinu var það sameiginleg ákvörðun nemenda og kennara að nýta daginn til kennslu. Í tilefni dagsins færði Lostæti mötuneytið að hluta út í góða veðrið og bauð upp á grillaða hamborgara.
Þetta mæltist að sjálfsögðu vel fyrir og fjölmargir nemendur og starfsmenn skólans nýttu sér þetta og fengu sér hamborgara í hádeginu. Aðrir nýttu frímínúturnar til þess að sóla sig og njóta hlýrra geisla sólarinnar og undirstrika þannig að það er komið sumar.
Á sama tíma er Hlíðarfjall þakið þykkri snjóhulu og þar renna sér mörg hundruð krakkar á Andrésar andar leikunum á skíðum, í sannkallaðri sólarsveiflu.
Myndavélin var á lofti á þessum sólríka og hlýja fyrsta sumardegi.
Og hér eru tvær myndir til viðbótar af nemendum á listnámsbraut sem færðu kennslustofuna út á þak skólans í tilefni dagsins.