Sótthreinsun og hið daglega líf í skólanum
Skólastarf núna á haustdögum er með öðrum hætti en í venjulegu árferði, eins og margoft hefur komið fram. Lögð er mikil áhersla á að fylgja öllum settum reglum um sóttvarnir og það hefur almennt gengið vel. Auðvitað kemur fyrir að fólk gleymi sér, bæði starfsmenn og nemendur – t.d. á göngum skólans – og virði ekki fjarlægðarreglur en það er líka mannlegt. Aðstæðurnar eru í hæsta máta óvenjulegar og það tekur tíma fyrir alla að tileinka sér nýja siði. En eins og Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðnbrautar, sagði nemendum sínum í grunndeild málmiðnaðar í lok kennslustundar í gær þurfum við öll að leggja okkur fram við persónulega sótthreinsun og læra að lifa með veirunni þar til lífið færist í eðlilegan farveg á nýjan leik, hvenær sem það kann að verða.
Það er einmitt í verknámsdeild eins og á málmiðnaðarbraut þar sem snertifletirnir eru ótrúlega margir og því þarf að gæta vel að sótthreinsun allra þeirra áhalda sem eru notuð í kennslustundum, véla og vinnuborða. Hörður leggur á það ríka áherslu við nemendur að þegar þeir komi inn í vélasal málmiðnaðarbrautar byrji þeir á því að þvo hendur sínar og spritta síðan. Á meðan á kennslustund stendur vill hann að nemendur spritti sig nokkrum sinnum og að loknum tíma, áður en nemendur fara út úr vélasalnum og mögulega í annað rými í skólanum eða heim sápuþvoi þeir hendur vel og vandlega.
Hörður segir að vissulega geti oft og tíðum verið flókið að fylgja öllum settum sóttvarnareglum í verklegri kennslu eins og á málmiðnaðarbrautinni en annað sé ekki í boði. Allir, kennarar og nemendur, leggist á eitt og geri sitt besta.
Eins og undanfarin ár er mikil aðsókn nemenda í grunndeild málmiðnaðar. Hún er fullskipuð á önninni með 44 nemendur og þeim er skipt í fjóra hópa. Þegar litið var inn í kennslustund í grunndeild hjá Herði Óskarssyni voru nemendur að taka fyrstu skrefin í smíði á blikkkassa. Eins og vera ber er margt nýtt að læra enda væntanlega ekki margir nemendur sem hafa mikla reynslu í málmsmíði þegar þeir koma í skólann. En æfingin skapar meistarann, það er gömul saga og ný.
Við lok kennslustundarinnar voru nemendur með klúta og bréf og sótthreinsibrúsa á lofti og lögðu sitt af mörkum til daglegrar sótthreinsunar í vélasalnum. Þetta eru sannarlega öðruvísi og krefjandi tímar.