Sprengjan í Sjallanum! - Nýnemaball VMA
„Við ætlum að byrja þetta með látum enda loksins hægt að hafa félagslífið á nokkuð eðlilegum nótum eftir kóvid-faraldurinn. Þess vegna höfum við ákveðið að nýnemaballið, sem verður fimmtudagskvöldið 1. september nk., beri yfirskriftina Sprengjan! Nýnemaballið verður í Sjallanum og við ætlum að leggja mikið í það. Við erum þegar komin af stað með forsölu aðgöngumiða á heimasíðunni okkar og kostar miðinn kr. 2.500 envið innganginn kostar miðinn kr. 3.500,“ segir Steinar Bragi Laxdal, formaður nemendafélagsins Þórdunu.
Á Sprengjunni í Sjallanum koma fram SZK, Séra Bjössi og DJ Our Psych.
Daginn fyrir nýnemaballið, miðvikudaginn 30. september, verður nýnemaferð á vegum skólans og segir Steinar Bragi að sama dag og ballið verði sé ætlunin að hita upp fyrir það með því að bjóða öllum í grill í skólanum.
Nýnemaballið verður sem sagt fyrsti stóri viðburður Þórdunu í vetur en Steinar Bragi upplýsir að margt sé í pípunum í félagslífinu. Ætlunin sé að endurvekja Fimmtudagsfílinginn, sem er yfirskrift á ýmsum uppákomum sem verða í Gryfjunni í löngufrímínútum á fimmtudögum. Fyrsta uppákoman verður fimmtudaginn 8. september.
Undirfélög Þórdunu eru ennig í startholunum með vetrarstarfið. Leikfélag VMA mun standa fyrir smiðjum í leiklist og er ætlunin að örleikrit verði sýnt sem afrakstur þeirrar vinnu. Síðan verður vitaskuld stór leiksýning á vegum Leikfélags VMA, sem endranær, frumsýnt verður í febrúar 2023. Upplýst verður fljótlega hvaða leikrit verður fyrir valinu í vetur.
Af öðrum félögum má nefna að búið er að virkja Hinseginfélag VMA, sem hefur legið í eilitlum kóviddvala og nýlega var hleypt af stokkunum Dansfélaginu Valkyrjum, sem hyggst verða með opna danstíma fyrir alla einu sinni í viku.
Það er því fjölmargt í pípunum í félagslífinu í VMA í byrjun nýs skólaárs og því um að gera að fylgjast með á glænýrri heimasíðu Þórdunu og Instragram reikningi félagsins.
Í lokin er rétt að geta þess að stjórn Þórdunu leitar að einum stjórnarmanni til þess að taka að sér formennsku í hagsmunaráði og þá leitar stjórnin einnig að fulltrúa nýnema í stjórnina.