Starfandi sálfræðingur í Verkmenntaskólanum á Akureyri
Skólaárið 2012-2013 var í fyrsta skipti starfandi sálfræðingur í Verkmenntaskólanum á Akureyri (VMA). Starf hans fólst
meðal annars í því að veita hóp- og einstaklingsmeðferð fyrir nemendur skólans sem upplifðu andlega vanlíðan eins og þunglyndi
eða kvíða. Eins og sést í ársskýrslu um sálfræðiþjónustu í VMA nýttu nemendur sér þjónustuna
í ríku mæli og komu rúmlega 10% nemenda einu sinni eða oftar í viðtal til sálfræðings VMA.
Í skýrslunni kemur einnig fram að talsverður munur er á notkun þjónustunnar eftir búsetu nemendanna. Rúmlega 9% nemenda sem bjuggu á
Akureyri og nærsveitum sóttu þjónustuna á meðan 14% nemenda með lögheimili utan Akureyrar sóttu hana. Ætla má af þessum
tölum að sálfræðiþjónusta VMA sé sérstaklega mikilvæg þeim nemendum sem þurfa að flytja burtu frá fjölskyldum
sínum til þess að stunda sitt nám.
Það að sálfræðiþjónusta fari fram innan veggja skólans færir þjónustuna nær nemendum, gæti stuðlað að því að minnka fordóma nemenda gagnvart þeim sem þurfa á sálfræðiaðstoð að halda og verður þess valdandi að nemendur fái viðeigandi hjálp fyrr en ella.
Skýrsluna í heild má nálgast hér.