Fara í efni

Starfsbraut: Góð reynsla af starfstengdu námi

Kristín Rósa Jóhannsdóttir í þvottahúsi Hlíðar.
Kristín Rósa Jóhannsdóttir í þvottahúsi Hlíðar.
Nemendur á þriðja og fjórða ári starfsbrautar VMA taka svokallað starfstengt nám, sem felst í því að nemendur starfa tímabundið á hinum ýmsu vinnustöðum á Akureyri og geta þannig kynnst vel og þjálfast í ólíkum störfum.

Nemendur á þriðja og fjórða ári starfsbrautar VMA taka svokallað starfstengt nám, sem felst í því að nemendur starfa tímabundið á hinum ýmsu vinnustöðum á Akureyri og geta þannig kynnt sér og þjálfast í ólíkum störfum.

Starfstengt nám hefur verið liður í námi nemenda á starfsbraut VMA frá því að hún tók til starfa og reynslan af því hefur verið góð. Námið er skipulagt í samstarfi við AMS (atvinna með stuðningi) hjá Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar og hefur það að markmiði að nemendur á þriðja og fjórða ári kynnist vinnumarkaðnum og geti þannig myndað sér skoðun á því hvaða störf henti þeim í framtíðinni. Verkefnið byggir að sjálfsögðu á góðu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Við það er miðað að hver nemandi á þriðja og fjórða ári starfi á einum vinnustað á hverri önn – frá tveimur og upp í tólf tíma á viku.  Þetta þýðir að nemendur starfsbrautar hefja starfsnámið þegar þeir eru komnir á fimmtu önn í skólanum og fara því samtals á fjóra vinnustaði áður en þeir útskrifast frá skólanum eftir áttundu önn. Vinna nemendanna á hverjum stað er viðkomandi fyrirtækjum og stofnunum að kostnaðarlausu.

„Samstarf okkar við fyrirtæki og stofnanir hér á Akureyri hefur gengið mjög vel. Við sem störfum á starfsbrautinni fylgjum nemendunum eftir út á vinnustaðina og erum þeim til halds og trausts að svo miklu leyti sem þörf er á. En almennt hefur þetta gengið afar vel og þetta hefur sýnt sig að vera mjög mikilvægur hluti af námi krakkanna hér,“ segir Rögnvaldur Símonarson, kennari við starfsbraut VMA.

Að loknu námi á hverjum vinnustað fyllir vinnuveitandinn út sérstakt starfsmatsblað, sem er síðan lagt til grundvallar þegar gefin er einkunn fyrir þennan hluta námsins. Á starfsmatsblaðinu kemur m.a. fram hvernig mætingum nemandans var háttað,  hvernig hann tileinkaði sér starfið,  hvernig samskipti hans voru við samstarfsfólk og hvaða ábyrgð hann sýndi í starfi.

„Þetta starfstengda nám hefur í mörgum tilfellum skilað því að nemendur hafa fundið út hvar áhugasvið þeirra liggur og þess eru dæmi að eftir útskrift úr VMA hafi þeir fengið vinnu á vinnustöðum þar sem þeir voru í starfstengdu námi," segir Rögnvaldur.

Á starfsbraut VMA eru nemendur með námserfiðleika af ýmsum toga og eru nemendurnir nú um fimmtíu. 

Markmið náms á starfsbraut er:

- Að undirbúa nemendur fyrir sjálfstæða búsetu.
- Að undirbúa nemendur fyrir almennan vinnumarkað.
- Að kenna nemendum að hagnýta sér samgöngutæki.
- Að kenna nemendum að nýta sér félags- og menningarleg verðmæti.
- Að undirbúa nemendur fyrir frekara nám og símenntun.

Rögnvaldur Símonarson segir að starfstengda námið sé í sífelldri þróun og nú sé einmitt unnið að því að þróa það áfram og liður í því er þróunarverkefni sem er styrkt af menntamálaráðuneytinu.  Rögnvaldur segir rætt um að nemendur komi til með að geta valið um leiðir í starfstengda náminu – annars vegar framleiðsluleið – þar sem áherslan er á frumvinnslugreinarnar – og hins vegar þjónustuleið – sem skiptist í annars vegar opinbera þjónustu og hins vegar verslun og þjónustu á almennum markaði. Liður í þróunarverkefninu er einnig að móta svokallaðan „nýsköpunaráfanga“ í náminu, sem hafi það að markmiði að ýta undir að nemendur skapi sér sjálfir fjölbreytt verkefni, sem þeir hafi mögulega tekjur af.

Á meðfylgjandi mynd er Kristín Rósa Jóhannsdóttir, nemandi á starfsbraut VMA, í starfstengdu námi í þvottahúsi dvalarheimilisins Hlíðar á Akureyri.

oskarthor@vma.is