Starfsbrautakennarar funduðu í VMA
Aðalfundur Félags starfsbrautakennara í framhaldsskólum var haldinn í VMA sl. föstudag. Á fundinn komu starfsbrautarkennarar í VMA, frá Mosfellsbæ, Reykjanesbæ og Reykjavík en einnig fylgdist fjöldi kennara annars staðar á landinu með fundinum í beinu streymi.
Starf- og sérnámsbrautir eru starfræktar við nokkra framhaldsskóla á landinu, þar á meðal VMA. Námið er fjölbreytt blanda af bóklegum og verklegum áföngum.
Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa voru á fundinum erindi og kynningar. Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundabúnað og einnig ræddi Ingibjörg Karlsdóttir, sérfræðingur hjá Félagi framhaldsskólakennara, um vinnumat í gegnum fjarfundabúnað og svaraði spurningum fundarmanna.
Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir var fundarstjóri og Urður María Sigurðardóttir var fundarritari.
Kennarar voru með kynningar á áhugaverðum áföngum sem þeir kenna á starfsbrautum. Kristján Bergmann Tómasson og Margrét Bergmann Tómasdóttir sögðu frá tómstundaáfanga sem þau kenna saman á starfsbraut VMA, Telma Rut Eiríksdóttir, kennari á starfsbraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sagði frá fjölbreyttum valáföngum sem boðið er upp á starfsbraut skólans og Hilmar Friðjónsson, kennari við VMA, sagði frá reynslu sinni af fjölbreyttum aðferðum við stærðfræðikennslu á starfsbraut. Einnig flutti Rósa Hrönn Árnadóttir, brautarstjóri starfsbrautar Tækniskólans, erindi um verkferla við alvarlegum agabrotum nemenda.