Starfsemi FAB-LAB smiðjunnar hafin
Þessa dagana er starfsemi nýju FAB-LAB smiðjunnar, sem er staðsett í VMA, að hefjast. Fyrsti námskeiðshópurinn á vegum Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar mætti í fyrstu kennslustundina sl. mánudag og í þessari og næstu viku verða kynningar fyrir kennara grunn- og framhaldsskóla á svæðinu til undirbúnings fyrir notkun grunn- og framhaldsskólanema á tækjum og tólum FAB-LAB smiðjunnar.
Síðastliðinn föstudag var boðið til kaffisamsætis í FAB-LAB smiðjunni þar sem voru m.a. fulltrúar rekstraraðila smiðjunnar og þeirra fyrirtækja sem fjárhagslega hafa lagt henni lið við kaup á tækjabúnaði.
Að FAB-LAB smiðjunni hafa staðið frá upphafi VMA, SÍMEY, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Akureyrarbær. Auk þess leggur Eyjafjarðarsveit smiðjunni til rekstrarframlag. Stofnsamningur um smiðjuna var til þriggja ára – 2016-2018.
Hæsta framlag fyrirtækja til tækjakaupa kom frá Norðurorku. Einnig lögðu tækjakaupum lið KEA, SS Byggir, Höldur og Byggiðn – stéttarfélag.
FAB-LAB smiðjan á Akureyri er sú sjöunda á Íslandi. Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, gat þess í ávarpi við kynningu á smiðjunni sl. föstudag að hann hefði miklar væntingar til hennar, enda staðsett í Eyjafirði þar sem mannlíf væri fjölbreytt, menntun öflug og fjölþætt og sterkt atvinnulíf.
Kynningu á tækjabúnaði smiðjunnar og hvernig hún virkaði önnuðust Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri FAB-LAB smiðjunnar í VMA, Helga Jónasardóttir, vöruhönnuður og kennari við listnámsbraut VMA, og Halldór Grétar Svansson, þrívíddarhönnuður. Þau Helga og Halldór Grétar kenna á áðurnefndum námskeiðum á vegum SÍMEY ásamt Ólafi Pálma Guðnasyni, sem kennir þrívíddarforritun.
Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri FAB-LAB smiðjunnar, segir að fyrri part dags – til kl. 16 – sé gert ráð fyrir að skólarnir á svæðinu nýti smiðjuna en seinnipart dags verði þar námskeið á vegum SÍMEY og almenningur fái einnig aðgang að smiðjunni. Hann segir að reynslan verði að skera úr um hvernig tímataflan líti nákvæmlega út, það muni koma í ljós þegar skólarnir verði byrjaðir að nýta smiðjuna og námskeiðin komin í fullan gang. En almennt megi segja að smiðjan fari vel af stað og aðsókn að auglýstum námskeiðum hjá SÍMEY sé mjög góð. Jón Þór hyggst nýta FB-síðu smiðjunnar vel til þess að setja þar reglulega upplýsingar um starfsemina og einnig sé ætlunin að setja upp sameiginlegan Snapchat-reikning fyrir allar sjö FAB-LAB smiðjur landsins.
Þá er vert að undirstrika að annan föstudag, 17. febrúar, verður opið hús fyrir almenning í FAB-LAB smiðjunni, þar sem allir áhugasamir geta komið. Þetta opna hús verður auglýst nánar síðar.