"Starfsfóstrur" á námskeiði
Frá árinu 2011 hefur Verkmenntaskólinn á Akureyri tekið þátt í verkefninu Workmentor - Mentoring in the workplace for VET (Vocational Education and Training). Vinnumálastofnun á Akureyri hefur tekið þátt í öðru verkefni með stuðningi Skrifstofu Menntaáætlunar Evrópusambandsins – Leonardo da Vinci - sem nefnist Big – Bang. Núna í febrúar standa VMA og Vinnumálastofnun í sameiningu að námskeiði fyrir fulltrúa fyrirtækja á Akureyri sem fá hlutverk svokallaðra starfsfóstra á vinnustöðum, leiðbeina ungu fólki inni á vinnustöðum.
Jóhannes Árnason, kennari í VMA, hefur verið leiðandi fyrir hönd skólans í þessu samstarfsverkefni, Workmentor, en einnig hafa komið að því af hálfu skólans þau Ketill Sigurðsson og Kristín Petra Guðmundsdóttir.
Tilgangur þessa verkefnisins er að velja efni og yfirfæra aðferðir sem kallast Mentoring – fóstrun á þær aðstæður sem ríkja þegar starfsmaður á vinnustað tekur að sér að styðja nýliða, t.d. nemanda sem kemur á vinnustaðinn í vinnustaðanám.
Sem fyrr segir hafa VMA og Vinnumálastofnun á Akureyri tekið höndum saman um námskeið til þess að uppfræða þá sem kallast geta „mentorar“ eða starfsfóstrur inni á vinnustöðum á Akureyri. Fyrsti hluti námskeiðsins var í VMA í liðinni viku. Auk fulltrúa VMA og Vinnumálastofnunar mættu þar fulltrúar frá Útgerðarfélagi Akureyringa, Akureyrarbæ, Mat og Mörk, Rafeyri, Dekkjahöllinni, Hagkaup, Hársnyrtistofunni Zone, Fjölsmiðjunni, Tengi, Höldi bílaverkstæði, Strætisvögnum Akureyrar, Slippnum, Norðurorku og Mjólkursamsölunni.
Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar á námskeiðinu.