Starfsmannaferð til Brussel 2019
Töluverður hópur starfsmanna Verkmenntaskólans á Akureyri fór í ferðalag til Brussel í Belgíu dagana 26.-31. maí síðastliðinn. Þar voru heimsóttir þó nokkrir skólar á framhaldsskólastigi. Slíkar skólaheimsóknir hafa verið farnar frá VMA annað hvert ár með styrkjum úr endurmenntunarsjóðum stéttarfélaga. Í hópnum voru 71 starfsmaður og 31 maki, alls 102 í ferðinni.
Stór hluti af hópnum fór í heimsókn í Evrópuþingið strax á fyrsta degi. Þar fór smá tími í að koma hópnum saman og komast í gegnum öryggisleit. Eftir það tók á móti okkur Evrópuþingmaðurinn Marc Tarabella. Marc Tarabella er í hópi socialista og fulltrúi Belgíu í Evrópuþinginu. Eftir kynningu á starfsemi þingsins fórum við á safn um sögu þingsins.
Á þriðjudeginum voru skólaheimsóknir í skóla undir hatti GO sem rekur skóla innan flæmska samfélagsins. Í raun og veru eru tvö menntunarkerfi í gangi í Brussel, franskt og hollenskt kerfi og lítið samstarf þar á milli. En þar sem það er auðveldara að fá vinnu í hollenskumælandi hluta Belgíu er frekar eftirsóknarvert að fara í skóla sem tilheyra flæmska samfélaginu. Margir nemendur eiga erfitt með hollensku og þurfa kennarar að nota allskonar leiðir til að koma efninu til skila.
Á miðvikudeginum voru á dagskrá heimsóknir í skóla utan Brussel, sumir fóru til Antwerpen og aðrir til Liege. Í Antwerpen fór hópur í heimsókn í Antwerpen Maritime Academy sem er á tæknihaskólastigi. Skólinn býður m.a. upp á nám í skipstjórn og vélstjórn. Í Liege voru heimsóknir í fjóra skóla, m.a. skóla sem var fyrst og fremst hugsaður fyrir blinda og heyrnarlausa / heyrnarskerta nemendur og einnig nemendur með einhverfu. Einnig voru heimsóttir skólar sem sérhæfðu sig annars vegar í byggingagreinum og hinsvegar í matvælagreinum.
Á fimmtudeginum var greinilegt að það var frídagur í Belgíu. Mikill hluti verslana voru lokaðar, enda uppstigningardagur. Frídagur var einnig hjá okkar fólki sem ýmist naut veðurblíðunnar í borginni eða fór í dagsferðir á nálæga staði.
Föstudagurinn var heimferðardagur og voru starfsmenn ánægðir með vel heppnaða ferð.