Stefán Jakobsson á tónleikauppistandi í VMA
08.04.2016
Að loknu Vorhlaupi VMA næstkomandi fimmtudagskvöld verður blásið til kvöldvöku eða öllu heldur tónleikauppistand í Gryfjunni þar sem rokkarinn Stefán Jakobsson og tónlistarmaðurinn og uppistandarinn Andri Ívarsson verða í betri gírnum og flytja tónlist og segja sögur. Þetta er viðburður sem enginn má láta framhjá sér fara og er rétt að vekja athygli á því að hann er að sjálfsögðu öllum opinn.
Óþarft ætti að vera að þurfa að kynna Stefán Jakobsson til leiks. Hann er sem sagt Mývetningur sem vakti fyrst verðskuldaða athygli sem öflugur rokksöngvari þegar hann sigraði Söngkeppni VMA árið 2003 og söng síðan fyrir skólann í Söngkeppni framhaldsskólanna.
Stefán er líklega þekktastur fyrir að vera söngvari í einni af bestu og vinsælustu rokkhljómsveit Íslands í dag, Dimmu. Einnig hefur Stefán komið víða við og tekið þátt í ótal tónlistaruppfærslum í Hörpu, Hofi á Akureyri og víðar.
Andri Ívarsson var á sínum tíma í Menntaskólanum á Akureyri. Hann er mikill húmoristi og hefur vakið athygli á sér fyrir uppistand. Hann hefur verið að læra tölvunarfræði og spilar af fingrum fram á gítar, útskrifaður úr Tónlistarskóla FÍH og hefur kennt á gítar. Hér má heyra hann í viðtali á Rás 2 í apríl á sl. ári.
Ljóst er að það verður enginn svikinn af tónlistaruppistandi þeirra félaga í Gryfjunni nk. fimmtudagskvöld, 14. apríl.