Stefna á slökkviliðsmanninn og arkitektinn
Frá því að Friðbjörg Anna Gunnarsdóttir og Ylfa Rún Arnarsdóttir hófu nám í grunndeild byggingadeildar VMA fyrir hálfu öðru ári má segja að kóvidveiran hafi stjórnað lífi þeirra - og okkar allra. Frá fyrsta skóladegi þeirra hefur staðalbúnaðurinn verið grímur og spritt. Friðbjörg og Ylfa eru sammála um að þær séu fyrir löngu hættar að pirra sig á þessu, fyrst og fremst séu þær þakklátar fyrir að geta stundað námið sitt, þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Friðbjörg Anna og Ylfa Rún eru núna á sinni fjórðu önn í byggingadeildinni. Þær eru hluti af nemendahópnum sem byggir eitt stykki sumarhús og þar voru þær einmitt að velta vöngum með brautarstjóranum í byggingadeildinni, Helga Val Harðarsyni, þegar kíkt var inn í sumarhúsið. Nemendahópurinn á öðru árinu glímir á hverjum vetri við að byggja sumarhús og húsið sem nú er í smíðum var reist um mánaðamótin september-október 2021. Síðan hefur það smám saman verið að taka á sig mynd og þegar litið var í heimsókn voru nemendur að klæða húsið að innan með rakalagi. Allt er þetta auðvitað gert eftir kúnstarinnar reglum og nemendur læra ótal margt þegar þeir leggja saman krafta sína við byggingu sumarhússins.
Friðbjörg Anna Gunnarsdóttirm sem er frá Grenivík, segir að hún hafi lengi horft til þess að starfa í slökkviliði og hún hafi talið að húsasmíðin væri góður grunnur í það. Valið á húsasmíðinni hafi líka ráðist á því að hún hafi ekki áhuga á vera í bóknámi alla daga, gott sé að geta blandað þessu saman. Auk húsasmíðinnar stefnir hún að því að ljúka stúdentsprófi að loknu starfsnámi.
Ylfa Rún Arnarsdóttir frá Akureyri er á sama máli að það sé góð blanda að læra húsasmíði og taka bóklega áfanga. Hún hyggst einnig ljúka húsasmíðinni og stúdentsprófi. Stefnan hafi verið tekin á að læra arkitektúr og hún hafi talið að góður grunnur fyrir það væri að hafa innsýn í hvernig best sé byggja það sem arkitektar hanna. Auk skólans vinnur Ylfa Rún í byggingavinnu hjá BF byggingum á Akureyri.
Friðbjörg Anna og Ylfa Rún eru sammála um að húsasmíðanámið sé skemmtilegt og afar lærdómsríkt sé að taka þátt í því verkefni að byggja sumarhúsið.