Fara í efni

Stefndi á sálfræðinginn en er á lokaönn í hársnyrtiiðn

Birkir Már Hauksson í vistarveru námsbrautar í hársnyrtiiðn í VMA.
Birkir Már Hauksson í vistarveru námsbrautar í hársnyrtiiðn í VMA.

Því fer víðs fjarri að leið Birkis Más Haukssonar í nám í hársnyrtiiðn hafi verið bein og breið og ráðin strax á unglingsárum. Að loknum Oddeyrarskóla fór hann í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi 2019. Að því loknu tók Birkir Már sér eins árs hlé frá námi, því hann var allsendis óráðinn í því hvert leiðin til frekari náms myndi liggja. En síðan lá leiðin til Bandaríkjanna þar sem hann stundaði háskólanám á fótboltastyrk, þ.e. var í háskólanámi og æfði og spilaði jafnframt fótbolta með liði skólans. Dvölin ytra var ekki eins löng og lagt var upp með í fyrstu, Birkir kom aftur heim eftir eina önn.

Fljótlega eftir heimkomuna vildi svo til að vinur hans bað hann að laga eilítið til klippingu sem hann hafði fengið – og þar með var teningnum kastað. Birki Má fannst þetta strax svo áhugavert að hann fór að fikta meira í klippingum og ákvað síðan að fara í námið. Og núna er hann kominn á síðustu önn í námi í hársnyrtiiðn og er í dag á leið í námsferð til Malaga á Spáni með átta bekkjarsystrum sínum og kennurunum Hörpu og Hildi Salínu.

Frá blautu barnsbeini hefur fótboltinn verið áhugamál Birkis. Hann spilaði upp alla yngri flokkana með Þór og færði sig síðan yfir í Magna á Grenivík í eitt ár áður en hann fór til Bandaríkjanna. Eftir að Birkir kom aftur heim spilaði hann eitt tímabil með KF í Fjallabyggð og síðustu þrjú tímabilin hefur hann spilað vinstri bakvörð með Magna.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn voru tvær ástæður fyrir því að ég fór að prófa mig áfram í klippingum. Annars vegar fannst mér þetta skemmtilegt og í annan stað fannst mér svo dýrt að fara í klippingu! Ég fékk því félaga minn í þetta líka, ég klippti hann og hann klippti mig! Út frá þessum áhuga ákvað ég að fara í þetta nám. Vinur minn gerði það reyndar ekki en engu að síður erum við enn með skiptidíl, hann klippir mig og ég klippi hann. Nú veit ég töluvert meira og get því sagt honum aðeins til þegar hann er að klippa mig, hvað hann geti gert betur,“ segir Birkir Már.

Að námi loknu er stefna Birkis Más að starfa sem rakari, í það minnsta til að byrja með, og einbeita sér fyrst og fremst að herraklippingum, þar segir hann að áhugasviðið liggi. Því hafi verið gott að fá tækifæri til þess að vinna við hlið fagmanna eins og Alla og Gulla á Rakarastofu Akureyrar sl sumar. Almennt segir Birkir að hann hefði kosið að læra meira um eitt og annað í tengslum við herraklippingar og hann myndi gjarnan vilja sjá í framtíðinni möguleika á aukinni sérhæfingu í þeim í námi í hársnyrtiiðn, því þær bjóði upp á meiri fjölbreytni en virðist í fljótu bragði.

„Ég viðurkenni fúslega að þegar ég var í MA hvarflaði ekki að mér að ég myndi síðar læra hársnyrtiiðn. Ég hafði mikinn áhuga á sögu og tók því alla söguáfanga sem ég gat tekið og einnig tók ég alla sálfræðiáfanga sem voru í boði því ég var staðráðinn í að verða sálfræðingur. En þegar ég lauk MA fann ég að áhuginn á frekara bóknámi hafði dvínað mjög. Engu að síður fór ég til Bandaríkjanna í háskólanám í Sports Managements en fann fljótt að það átti ekki alveg við mig og ákvað því að láta staðar numið og feta aðra braut,“ segir Birkir Már.