Stefni á arkitektinn
Natalia Oliwia Kozuch flutti til Akureyrar frá Gdynia í Póllandi með móður sinni árið 2018. Raunar var gert ráð fyrir að þetta yrði stutt sumarfrísheimsókn en síðan eru liðin um sjö ár og þær mæðgur eru hér enn.
Þegar Natalia horfir til baka til fyrstu mánuðanna á Íslandi segist hún fúslega viðurkenna að þeir hafi verið henni töluvert erfiður tími. Hún hafi saknað vinanna í heimalandinu og ýmislegs annars þaðan. En síðan hafi tíminn liðið, hún var í fjórum efstu bekkjum grunnskóla í Síðuskóla á Akureyri, eignaðist vini og festi rætur á Íslandi. Þó svo að Póllandsstrengirnir séu henni sterkir líti hún nú á Ísland sem sitt land, hér hafi hún eignast góða vini og þroskast á sínu mótunarskeiði.
Frá unga aldri hefur Natalia átt sér þann draum að verða arkitekt og þær áætlanir eru enn upp á borðinu. Hún segist ekki geta gert sér grein fyrir hvað hafi valdið áhuga hennar á arkitektúr en hann hafi ekki dvínað með árunum. Hún er núna á þriðja ári í VMA og stefnir á stúdentspróf í desember. Síðan er planið, eins og staðan er núna, að innritast í nám í arkitektúr í Gdansk í Póllandi. Ástæðan fyrir því að hún valdi að fara á listnáms- og hönnunarbraut VMA var einmitt sú að undirbúa sig sem best fyrir nám í arkitektúr
Íslenskuna hefur Natalia auðvitað lært en velur stundum, ef umræðurnar eru flóknar, að grípa til enskunnar. Þegar hún er spurð hvaða námsgrein í VMA sé henni hvað erfiðust nefnir hún íslenskuna. Sérstaklega hafi bókmenntaáfangi á þriðja þrepi, þar sem m.a. eru lesnar Íslendingasögur, verið nokkuð snúinn og krafist mikillar yfirlegu. Það hafi t.d. verið bærilega krefjandi fyrir sig að lesa Egils sögu enda mikill texti og hann á köflum nokkuð flókinn.
Þessa dagana er akrílverk eftir Nataliu til sýnis á vegg gegnt austurinngangi VMA. Hugmyndina að verkinu, sem var unnið í málunaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur kennara á haustönn 2024, fékk Natalia þegar henni var litið á glas sem hún drakk úr á flugvellinum í Gdansk í Póllandi í október sl. þegar hún beið eftir að ganga um borð í flugvél til Íslands. Í svaladrykknum svömluðu ber og sítrónusneiðar. Þennan litskrúðuga svaladrykk endurskapaði Natalia í þessu akrílverki.