Stefnir á atvinnumennsku í golfi
Tumi Hrafn Kúld, nemandi á íþróttabraut VMA, er í hópi efnilegustu kylfinga landsins. Hann er nýlega farinn að spila í fullorðinsflokki og á Nýherjamótinu, fyrsta mótinu í Eimskipsmótaröðinni 2016-2017, sem var haldið í Vestmannaeyjum um þarsíðustu helgi, gerði hann sér lítið fyrir og sigraði. Næsta mót og það síðara í mótaröðinni á þessu ári verður núna um helgina á Akranesi. Framtíðarmarkmið Tuma Hrafns er mjög skýrt, hann stefnir á atvinnumennsku í golfi og stóra skrefið í því er að fara í háskóla í Bandaríkjunum og keppa og æfa með golfliði skólans.
„Ég hef spilað golf í um átta ár. Þegar ég var ellefu ára fóru mamma og pabbi að stunda golf og þau fóru gjarnan átján holur eftir vinnu og komu því ekki heim fyrr en um klukkan níu á kvöldin. Það þýddi að oft fékk ég ekki kvöldmat heima og því æxluðust mál þannig að ég fór að fara með þeim í golfið og fljótlega fékk ég mikinn áhuga á golfinu og vildi læra það og æfa. Fyrsti kennarinn minn var Árni Jóns og síðar kenndu mér Ólafur Gylfason, danski golfkennarinn Brian Höjgaard Jensen og síðan Sturla Höskuldsson, sem nú er þjálfarinn minn,“ sagði Tumi Hrafn.
Bróðurpart af liðnu sumri hefur Tumi Hrafn verið í Bandaríkjunum við æfingar og keppni og segir hann að þar vestra hafi hann bætt sig umtalsvert í íþróttinni. „Þessi Bandaríkjadvöl mín kom þannig til að á Arctic Open golfmótinu á Akureyri í fyrra tóku þátt bandarísk hjón og gistu þau hjá okkur meðan á mótinu stóð. Ég spilaði með þeim einn æfingahring á Jaðarsvelli og sýndi þeim völlinn og leist þeim svo vel á mig að þau buðu mér í framhaldinu að koma til Wisconsin, þar sem þau búa, til æfinga og keppni. Ég sló ekki hendinni á móti því og dreif mig til til Bandaríkjanna snemma í sumar. Það er ekkert launungarmál að mitt stærsta markmið er að verða atvinnumaður í golfi og endurgjalda foreldrum mínum, Arinbirni Kúld og Önnu Einarsdóttur, eitthvað af því sem þau hafa gefið mér, því staðreyndin er sú að þau hafa fórnað miklu fyrir mig.“
Tumi Hrafn fæddist á Akranesi en flutti með fjölskyldunni til Akureyrar þegar hann var sex ára gamall. Hann spilaði handbolta og fótbolta með KA og fer ekki leynt með að hann sé harður stuðningsmaður félagsins. Bæði handboltinn og fótboltinn þurftu hins vegar að víkja þegar golfbakterían heltók hann.
„Mér varð það ljóst fyrir um tveimur árum, þegar ég varð Íslandsmeistari í flokki 17-19 ára og þann titil varði ég síðan í fyrra, að ég ætti mögulega erindi í atvinnumennsku. Núna er ég kominn í fullorðinsflokk og þar er samkeppnin miklu harðari.“
Þrátt fyrir að stutt sé í veturinn láta kylfingar eins og Tumi Hrafn engan bilbug á sér finna og æfa stíft. Kylfingar á Akureyri eiga sér athvarf í kjallara Íþróttahallarinnar við Skólastíg og þangað liggur leið Tuma á nánast hverjum degi yfir vetrarmánuðina. Um helgar eru lengri æfingar og einnig eru einkatímar með þjálfaranum þar sem unnið er með ákveðna hluti. „Andlegi hlutinn myndi ég segja að sé 80% af golfinu. Ég fór til íþróttasálfræðings fyrir tveimur árum og hann breytti allri minni sýn á íþróttina. Hann lét mig skrifa niður nokkra punkta og fyrir hvern einasta keppnishring les ég þá yfir. Hann hvatti mig líka til þess að hlusta á hvetjandi ræður, t.d. er gott að láta Sylvester Stallone öskra í eyrun á manni áður en maður fer að keppa. Þannig næ ég upp keppnisskapinu. Þetta hefur hjálpað mér mikið,“ segir Tumi Hrafn.
Hann segir að sigurinn á fyrsta mótinu í Eimskipsmótaröðinni í Eyjum hafi komið sér þægilega á óvart. „Ég fór á mótið með það að markmiði að sjá hvar ég stæði miðað við strákana hér heima. Ég hafði séð skorið þeirra og vissu að þeir voru flestir undir pari og því hafði ég ekki miklar væntingar. En ég hugsaði þó með mér að ef þeir gætu þetta, þá hlyti ég líka að geta náð góðu skori. Það var því stóra málið að fara rólegur og yfirvegaður í mótið og láta ekki stressið ná tökum á mér. Það tókst mjög vel. Þó svo að hugur minn væri fyrst og fremst við það sem ég var að gera á mótinu í Eyjum reyndi ég að fylgjast vel með mínum mönnum í KA sem voru að spila við Selfoss á Akureyrarvelli á sama tíma. Vinur minn var á leiknum og sendi mér reglulega upplýsingar. Uppskeran var tvöföld, ég náði að vinna mótið og KA tryggði sig upp í efstu deild,“ segir Tumi og brosir.
Tumi Hrafn er heldur betur búinn að leggja línurnar fyrir næstu ár. Hann nýtti tímann í Bandaríkjunum vel sl. sumar við æfingar og keppni og einnig kannaði hann möguleika á háskólanámi þar ytra samhliða því að stunda golfið. „Mér gekk vel í nokkrum mótum úti og útsendarar frá Marquette-háskólanum í Wisconsin sáu mig og buðu mér að skoða aðstæður í skólanum. Það gerði ég og leist vel á. Eins og staðan er núna stefni ég á sálfræðinám þar að loknu námi í VMA, væntanlega haustið 2018,“ segir Tumi Hrafn Kúld.